Við fengum skemmtilega heimsókn í Dalvíkurbyggð í dag þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, kom til okkar í fyrstu skipulögðu heimsókninni á friðlýst svæði á Íslandi. Guðmundur mætti ásamt aðstoðarmanni sínum, Sigríði Halldórsdóttur og Birni Helga Barkarsyni, sérfræðingi hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, á nýja áningastaðinn við Hrísatjörn og fékk þaðan leiðsögn um Friðland Svarfdæla.
Á áningarstaðnum tóku á móti ráðherranum, Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs, Steinþór Björnsson, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar, Davíð Örvar Hansson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun og Hjörleifur Hjartarson, landvörður í Friðlandi Svarfdæla.
Ráðherrann og fylgdarlið hans fékk fallegt veður til skoðunar á Friðlandinu og Svarfaðardalurinn skartaði sínu fegursta miðað við aðstæður, þó veðurguðirnir hefðu mátt vera eilítið örlátari á sólskinið. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá heimsókn dagsins.