Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur í mörg ár unnið að forvörnum tengdum umferðinni og frá árinu 1996 hafa slysavarnadeildir og björgunarsveitir um allt land gert könnun á öryggisbúnaði barna í bílum, sem og könnun á hjálmanotkun á reiðhjólum.
Slysum á börnum hefur fækkað verulega síðustu árin og eru menn mun meðvitaðri um öryggi barna í bílum en áður. Samt er víða pottur brotinn í þessum efnum.
Könnun SL á öryggisbúnaði barna í bílum fór fram um allt land vikuna 5. - 9. maí sl. og eins og undanfarin ár tók Kvennadeildin á Dalvík þátt í henni.
Könnunin hér á Dalvík fór fram við leikskólana Fagrahvamm og Krílakot. Samtals voru skoðaðar aðstæður 49 barna og voru 39 börn með viðeigandi öryggisbúnað, eða tæp 80% barnanna. Þrjú barnanna voru án alls öryggisbúnaðar, laus í aftursæti bifreiðar. Sex voru eingöngu í bílbelti og eitt barn var í öryggisbelti í framsæti í bifreið með loftpúða, en uppblásanlegur öryggispúði er lífshættulegur börnum. Í sex tilvikum voru ökumenn bifreiðanna án bílbeltis.
Í viðtölum við foreldra þeirra barna sem voru ekki með rétta öryggisbúnaðinn kom fram að sumum fannst ekki taka því að vera að spenna börnin niður innanbæjar því það væri svo stutt á leikskólann. En slysin gera ekki boð á undan sér og því verðum við að vera vel meðvituð um öryggi barnanna okkar, hvort sem við erum að skreppa eitthvað innanbæjar eða fara í lengri ökuferðir. Það er afar mikilvægt að venja börnin strax á að vera með öryggisbúnað og láta þau ekki komast upp með annað.
Þess má geta að það varðar við lög að nota ekki viðeigandi öryggis- og verndarbúnað í bifreiðum. Í 71. grein reglugerðar um brot á umferðarlögum kemur fram að sektarfjárhæð, sé sérstakur öryggisbúnaður fyrir barn ekki notaður, er krónur 10.000, og sé þess eigi gætt að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað varðar það sekt að fjárhæð 15.000 krónur.
Kvennadeildin á Dalvík framkvæmdi einnig könnun á notkun reiðhjólahjálma um miðjan maí. Í stuttu máli má segja að hjálmanotkun barna og unglinga á skólatíma sé í góðu lagi, þar voru 93,1% með hjálminn. En þegar könnunin var endurtekin seinni hluta dags var annað uppi á teningnum, einungis 73,1% voru með hjálm þá. Helst voru það unglingarnir sem slepptu hjálminum utan skólatíma. Rétt er að taka það fram að skólinn setur skýrar reglur um hjálmanotkun; ef barn kemur hjálmlaust á hjóli í skólann, er hjólið tekið í geymslu og þurfa foreldrar að sækja það eftir að skóla lýkur. Fullorðna fólkið virðist ekki vera duglegt að nota hjólahjálm en einungis um 25% þeirra sem skoðaðir voru í könnuninni voru með hjálm.
Samkvæmt lögum eiga börn yngri en 15 ára að nota hjálm á reiðhjóli og er sekt við broti á því kr. 5.000.
Hér eru nokkur atriði sem ber að hafa í huga varðandi hjólreiðahjálma.
- Allir hjálmar eiga að vera CE merktir
- Líftími hjálma er 5 ár frá framleiðsludegi en 3 ár frá söludegi
- Hjálmurinn þarf að vera af réttri stærð
- Hjálmur í skærum lit sést betur í umferðinni.
- Fylgjast þarf reglulega með því að hjálmurinn sé rétt stilltur
• Hvorki má líma né mála á hjálminn því við það getur höggþol hans minnkað
Hjólabretti, línuskautar og hlaupahjól er vinsæll ferðamáti, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Því miður eru slys í tengslum við þau algeng en svo virðist sem margir líti þannig á að ekki sé þörf á að nota hlífar eða hjálma þegar verið er á þeim. Í könnuninni okkar á Dalvík voru skráð sjö börn á línuskautum og voru öll nema eitt með hjálm, sem er afar ánægjulegt, hins vegar var aðeins einn með hjálm á hlaupahjóli.
Nýjasta tískubylgjan hjá unga fólkinu okkar eru svokallaðir Healys skór, með hjóli undir hælnum. Framleiðendur Healys ráðleggja öllum að nota hjálm og hlífar þegar verið er í Healys skóm. Mörg slys hafa orðið þegar klesst er á, dottið eða rekist á aðra einstaklinga og hafa þó nokkrar verslanir og skólar hér á landi bannað að verið sé í skónum hjá sér, eða amk. að notaðir séu hjálmar.
Við í Kvennadeild Slysavarnafélagsins hér á Dalvík vonumst til að niðurstöðurnar úr könnun sem gerð verður að ári verði hagstæðari fyrir okkur hér á Dalvík, að foreldrar taki sig á og setji öryggið á oddinn! Mikið má bæta varðandi öryggisbúnað barna í bifreiðum, hjálmanotkun barna utan skólatíma þarf að aukast og síðast en ekki síst þurfum við fullorðna fólkið að vera betri fyrirmynd, spenna beltin og nota hjálm!
Kvennadeild Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Dalvík.