Origami fugl að gjöf

Origami fugl að gjöf

Í gær fékk Bjarni sveitarstjóri afhenta gjöf frá Vinnumálastofnun, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Gjöfin var Origami fugl sem gerður var í Örva í Kópavogi, en það er vinnustaður fyrir fatlaða.

Þessi fyrrgreindu félög og stofnun vinna að samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að skapa störf fyrir atvinnuleitendur með skerta starfsgetu. Verkefnið er byggt upp með svipuðum hætti og önnur sambærileg verkefni sem Vinnumálastofnun hefur staðið fyrir á undanförnum árum. Í verkefninu felast möguleikar á stuðningi frá starfsráðgjöfum Vinnumálastofnunar við ráðningu á starfsfólki. Einnig geta launagreiðendur, með hverjum ráðningasamningi, fengið endurgreiddan hluta af launum og launatengdum gjöldum í samræmi við vinnusamninga öryrkja. Mikilvægasti hluti verkefnisins er þó að minna á að við búum í fjölbreyttu samfélagi sem hefur þörf og pláss fyrir ólíka einstaklinga.

Það voru Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Akureyri og Þorsteinn Kristinn Stefánsson sem afhentu Bjarna gjöfina.