06. júní 2008
Mikil umfjöllun er um Dalvík og Dalvíkinga í Séð og Heyrt. Talað er um Dalvík sem útungunarstöð fyrir risa og öflugt fólk. Dalvík hefur verið mikið í umfjöllun síðustu mánuði í tengslum við Eyþór Inga í Bandinu hans Bubba, Friðrik Ómar í Eurovision og Sonju Björk Jónsdóttur sem var í þriðja sæti fegurðardrottningar Íslands. Júlíus Júlíusson hefur verið ötul talsmaður Dalvíkur og rödd hans farið víða. Það er byggðarlagi mikils virði að geta af sér afreksfólk og í sömu andrá er það hvatning til barna að láta drauma sína rætast. Við eigum margar fyrirmyndir sem hafa gert það gott í íþróttum og listalífi. Björgvin Björgvinsson og Kristinn Ingi Valsson eru fyrirmyndir þeirra 90 krakka sem gerðu sigurför á Andrésar Andar leikana á skíðum nú í vetur. Heiðar Helguson er fyrirmynd krakka sem æfa fótbolta og svo mætti áfram telja. Höldum áfram að sýna samhug og stuðning í verki og verum dugleg að klappa á bakið og styðja okkar fólk.