Októberspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Þriðjudaginn 6. október 2015 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar. Fundurinn hófst kl. 14:00. Fundarmenn voru 7 talsins, sem er óvenju fátt enda veðrið gott og að ýmsu að hyggja hjá veðurspámönnum.

Farið var yfir spá síðasta mánaðar og voru fundarmenn að vonum ánægðir með tíðarfarið og ekki síður hversu vel hefði tekist til með veðurspá septembermánaðar.


Nýtt tungl kviknar 13. okt. kl. 00:06 í norðri og er það þriðjudagstungl. Þessi tunglkoma getur annað hvort boðað mjög gott eða mjög vont tíðarfar. Aðrar vísbendingar benda til þess að veðurfar í október verði gott eða svipað og það var í september. Þó muni koma smá sýnishorn af vetri í lok mánaðarins, sem ekki mun standa lengi.

Góð stemming var á fundinum þó svo að nokkurra væri saknað við spádóminn. Engu að síður voru klúbbfélagar bjartsýnir á haustið og veturinn fram að áramótum. Nánar um veðurfar í nóvember og desember síðar.

Með fylgir veðurvísa:

“ Í október hefst skólinn
að bjóða börnum heim.
Í nóvember er náttlangt
og norðurljósageym

Með góðri kveðju,

Veðurklúbburinn á Dalbæ