Síðastliðinn föstudag voru afhent verðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á ráðstefnunni Skapandi opinber þjónusta sem haldin var á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Þetta kemur fram á nýsköpunarvef Háskóla Íslands www.nyskopunarvefur.is
Eitt verkefni hlaut nýsköpunarverðlaun 2014 og fjögur verkefni til viðbótar fengu viðurkenningu fyrir nýsköpun.
Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2014 hlaut Landspítali- Háskólasjúkrahús fyrir verkefnið Rauntíma árangursvísar á bráðadeild.
Í rökstuðningi valnefndar kom m.a. eftirfarandi fram „Bráðasvið LSH er mjög flókin starfsemi og erfitt getur reynst að hafa yfirsýn um úrlausn og stöðu skjólstæðinga sem leita þangað þjónustu á hverjum tíma. Með hugkvæmni og áræðni voru nýttar og tengdar saman upplýsingar sem liggja fyrir í rauntíma og þær settar fram með myndrænum hætti. Rauntíma árangursvísar á bráðadeild er einfalt tæki, það er nýjung á sínu sviði og ekki til sambærilegt kerfi í nágrannalöndum okkar. Með verkefninu eru nýttar hugmyndir út framleiðslugeiranum til að auðvelda störf í hefðbundnum þjónustugeira“
Liður í umbótum á bráðamóttöku LSH er innleiðing árangursvísa í rauntíma en þeir mæla margskonar breytur í þjónustunni svo sem biðtíma, fjölda útskrifta og innlagna. Árangurs- og gæðavísarnir gefa starfsmönnum ómetanlegar upplýsingar um starfsemina á hverjum tíma og gera stjórnendum kleift að bregðast við álagspunktum með markvissari hætti en áður og fylgjast með gæðum í þjónustunni á mismunandi þjónustustigum. Mælar þessir hafa vakið mikla athygli, bæði innanlands sem og meðal erlendra ráðgjafa sem komið hafa á Landspítala, þar sem þetta þykir einstakt. Reynsla af þróun og innleiðingu árangursvísa í rauntíma hefur með áþreifanlegum hætti styrkt eftirfylgni með stöðugum umbótum á bráðamóttöku Landspítala Fossvogi. Það að hafa árangursvísa sem varpa sýn á mikilvægar gæða, öryggis og þjónustubreytur á bráðadeild er afar nauðsynlegt verkfæri í þeirri áhættusömu starfssemi sem þar er.
Eftirtalin verkefni fengu sérstaka viðurkenningu:
Dalvíkurbyggð hlýtur viðurkenningu fyrir verkefnið Söguskjóður
Verkefnið hefur m.a. það að markmiði að auka tengsl foreldra við leikskóla/grunnskóla. Foreldrar eru fengnir til að koma inn í skólana og útbúa stórar söguskjóður í tengslum við barnabækur, þar sem ýmsum hlutum tengdum efni bókanna er safnað saman. Foreldrar unnu í hópum að gerð skjóðanna með stuðningi starfsfólks skólanna.
Verkefnið þykir hafa heppnast mjög vel. Þannig kynnast foreldrar leikskólanum og hvoru öðru betur og þeir sem eru að læra íslensku fá tækifæri til að spreyta sig á nýju tungumáli og nálgast íslensk orð á fjölbreyttan máta. Kennararnir og foreldrar kynnast á annan hátt og aukið traust skapast þar á milli. Þá eru söguskjóðurnar lánaðar til skoðunar og umfjöllunar á vettvangi heimilisins og stuðla þannig að uppbyggilegum tengslum foreldra og barna.
Að mati valnefndar er þarna um að ræða einfalt en frumlegt verkefni þar sem leitast er við að virkja ólíka þekkingu, reynslu, eiginleika og bakgrunn aðstandenda skólabarna til að mæta nýjum áskorunum samfélagsins og auka skilning á fjölbreytileika þess. Jafnframt styrkir það innbyrðis tengsl í skólanum annars vegar og milli heimila og skóla hins vegar og eflir félagsauð samfélagsins með margvíslegum hætti.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hlýtur viðurkenningu fyrir verkefnið „Að halda glugganum opnum“
Í febrúar 2013 hóf embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum tilraunaverkefni til eins árs í samstarfi við félagsþjónustuna á Suðurnesjum. Markmiðið er að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi með markvissari fyrstu viðbrögðum lögreglu, að fækka ítrekunarbrotum, aðstoða þolendur og gerendur með markvissum hætti, bæta tölfræðivinnslu, að nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili og að ná fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið.
Verkefnið ber yfirskriftina „Að halda glugganum opnum“. Við upphaf heimilisofbeldismála er nú áhersla á að taka mál fastari tökum og með skipulagðari hætti en áður. Það er mat lögreglu að við upphaf mála af þessu tagi gefist oft fyrsta og jafnvel eina tækifærið til að hafa áhrif á framgang slíkra mála með bættri vettvangsrannsókn og með eftirfylgni sem felur í sér heimsókn á viðkomandi heimili innan viku frá atburði. Ýmis teikn eru um að með þessum samræmdu aðgerðum lögreglunnar og félagsþjónustunnar sé hægt að koma í veg fyrir ítrekunarbrot og að gerendur og þolendur leiti sér aðstoðar í auknum mæli. Vonir standa til að með verkefni sem þessu aukist traust borgaranna á lögreglunni og öryggisnet samfélagsins eflist með aukinni samvinnu lögreglu og félagsþjónustu. Að mati valnefndar er hér um að ræða nýmæli er hefur það að markmiði samhæfa starf tveggja ólíkra kerfa samfélagsins, löggæslunnar og félagslega kerfisins á svæðinu, til að takast á við tiltekið þjóðfélagsvandamál, sem er heimilisofbeldi. Valnefnd telur að í verkefninu felist ný frumleg hugsun, þar sem horft er á vandann með heildrænum hætti, brotist er út úr stofnanaramma og málin leyst með í samvinnu aðila.
Reykjanesbær, Garður og Sandgerði fengu viðurkenningu fyrir verkefnið Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis í menntamálum
Framtíðarsýn Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis í menntamálum var smíðuð árið 2011, var það metnaðarfulla markmið sett að leik- og grunnskólar bæjarins kæmust í fremstu röð á landsvísu.
Framtíðarsýnin er tekur m.a. mið af sáttmála sem allir skólastjórnendur leik- og grunnskóla á svæðinu skrifuðu undir. Hann felur í sér viljayfirlýsingu um að stuðla að bættum námsárangri barna á Reykjanesi og samþættingu læsis og stærðfræði í leikskólastarfi. Hlutverk framtíðarsýnar í menntamálum er tvennskonar. Annars vegar felur hún í sér stuðning og aðhald í daglegu skólastarfi. Hver skóli heldur sínum sérkennum og mótar eigin aðferðir til þess að mæta markmiðum framtíðarsýnarinnar. Hins vegar felur hún í sér verklag sem hefur bein áhrif á daglegt skólastarf. Verklag framtíðarsýnar einkennist af; 1) áherslu á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum, 2) notkun skimunarprófa í lestri og stærðfræði, 3) frammistöðumati, 4) góðri samvinnu heimilis og skóla og 5) rannsóknum og gagnvirku sambandi við háskólasamfélagið.
Auðvelt er að meta árangur af verkefninu með því að skoða framfarir á svæðinu eins og þær koma fram á samræmdum könnunarprófum Námsmatsstofnunar. Um árabil hafa skólar á þessu svæði verið með að meðaltali hvað lakastan árangur á landinu en bráðabirgðatölur sýna að miklar framfarir hafa orðið á samræmdum könnunarprófum síðastliðin tvö ár í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði. Samhliða framförum hefur áhugi nemenda á námi aukist. Niðurstöður úr Skólavoginni, tæki sem notað er til að safna upplýsingum um grunnskólastarf sýna til dæmis að nemendur í Reykjanesbæ hafa meiri áhuga en gengur og gerist á stærðfræði. Framfarir hafa orðið í leikskólum í læsi og stærðfræði, en grunnskólakennarar segja börn koma betur undirbúin undir grunnskólagöngu en áður.
Í rökstuðningi valnefndar segir m.a.: Verkefnið er unnið af miklum metnaði og leggur nýjar áherslur í menntun barna á fyrstu skólastigum með sameiginlegri framtíðarsýn sveitarfélaganna. Lögð er áhersla á að efla þekkingu nemenda í grunngreinum þ.e. læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum, virka skimun og eftirfylgni , samstarf við heimilin og nýtingu og sköpun nýrrar þekkingar. Þetta verkefni er eftirtektarvert, það hefur mikið almannagildi og felur í sér nýsköpun á sviði fræðslumála sem hefur þegar skilað mælanlegum árangri á skömmum tíma.
Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga fékk viðurkenningu fyrir miðstöðina sjálfa
Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda var stofnuð 2009. Helstu verkefni hennar eru ráðgjöf, kennsla og endurhæfing. Hugmyndafræði Miðstöðvarinnar er að sinna notendum, aðstandendum, kennurum og öðrum úr nærumhverfinu. Þjónustan fer fram í því umhverfi sem notandinn er í og á hans forsendum svo sem inná heimili, skóla, vinnustað, í tómstundaiðju og öðru til að stuðla að virkni, vinna gegn félagslegri einangrum og auka sjálfstæði. Hjá miðstöðinni er hver einstaklingur metin út frá eigin getu og þörfum. Þetta háa þjónustustig og aðferðafræði um fyrirbyggjandi þjónustu þar sem hið opinbera sýnir frumkvæði að því að hafa samband við einstaklinga og tryggja þjónustu og ráðgjöf hefur vakið athygli og ánægju viðskiptavina Miðstöðvarinnar og aðferðafræðin hefur vakið athygli erlendis. Með stofnun þekkingarmiðstöðvarinnar hefur þjónusta við blint , sjónskert og daufdumba einstaklinga batnað til muna og sjálfstæði notenda aukist.
Í umsögn valnefndar kemur m.a. fram að hún telji að uppbygging starfseminnar sé til fyrirmyndar og feli í sér að hugmyndafræði um að þjónusta einstakling með sérþarfir á forsendum hans sé raunverulega hrint í framkvæmd með einstökum árangri, sem hefur leitt til straumhvarfa fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar og stuðningskerfi hans. Verkefnið skiptir skjólstæðinga stofnunarinnar miklu, það hefur mikið almannagildi og hefur þegar skilað mælanlegum árangri. Hægt er að yfirfæra hugmyndafræði þess á aðra þætti opinberrar þjónustu.