Sif Jóhannesdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og vinnur hún auk annarra verkefna að framhaldsfræðslu við utanverðan Eyjafjörð. Svanfríður Inga Jónasdóttir, sem lét af störfum sem verkefnastjóri SÍMEY á Dalvík nýverið, hafði áður yfirumsjón með framhaldsfræðslu SÍMEY við utanverðan Eyjafjörð. Sif hóf störf hjá SÍMEY 1. febrúar sl.
Sif er Eyfirðingur, hún ólst upp á Þinghóli í Kræklingahlíð og lauk námi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1994. Leiðin lá í þjóðfræði í Háskóla Íslands og síðan starfaði hún í nokkur ár við kennslu í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Árið 2007 hóf Sif störf hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og var áherslan á atvinnuþróunarverkefni í Norður-Þingeyjarsýslu, ekki síst í ferðaþjónustu. Hún tók síðan við forstöðumannsstarfi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga árið 2011, með aðsetur á Húsavík, og gegndi því til sl. hausts.
Námsverið á Dalvík er í sambúð við Tónlistarskólann í Víkurröst. SÍMEY veitir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum alhliða þjónustu þegar kemur að starfsþróun sem og sí- og endurmenntun. Í námsverinu fara fram ýmis námskeið og ráðgjöf. Sif verður til viðtals og ráðgjafar í námsverinu á fimmtudögum frá 13-17. Hægt er að bóka viðtal og senda fyrirspurnir á netfangið sif@simey.is. Það er ekki nauðsynlegt að bóka viðtal eða spjall fyrirfram.