Íbúar við Sunnubraut á Dalvík hafa nú sammælst um nágrannavörslu í götunni. Þetta framtak íbúanna við Sunnubraut verður nú vonandi öðrum íbúum Dalvíkur til eftirbreytni. Markmiðið er að nágrannavarsla verði virk sem víðast í bænum. Myndin sýnir merkingu götunnar.
Nágrannavarsla felst í samvinnu nágranna um að gera umhverfi sitt og heimili öruggari. Með því móti er leitast við að draga úr innbrotum, þjófnaði og skemmdarverkum. Nágrannavarsla hefur verið þekkt í áratugi og hefur víða verið sett upp með góðum árangri bæði á Íslandi og víða erlendis.
Í janúar sl. var nágrannavarsla kynnt á fundi fyrir íbúum Dalvíkurbyggðar og var það að beiðni bæjaryfirvalda í samvinnu við lögreglu og Sjóvá.
Á fundinum var farið yfir hvernig íbúar geta á einfaldan hátt hafið nágrannavörslu í sinni götu eða hverfi. Lögreglan fór lögreglan yfir tíðni og tegund innbrota og þjófnaðar í Dalvíkurbyggð. Í framhaldi af fundinum hófu íbúar Sunnubrautar á Dalvík á Dalvík nágrannavörslu og var nágrannavörsluskilti komið upp í götunni.
Á fundinum um nágrannavörslu fór Fjóla Guðjónsdóttir frá Sjóvá yfir handbók um nágrannavörslu en handbókina má nálgast á vef Sjóvá, www.sjova.is eða hjá Sjóvá á Dalvík en þar geta starfsmenn prentað hana út öllum að kostnaðarlausu. Notkun handbókarinnar er að engu bundin við það að íbúar séu tryggðir hjá Sjóvá heldur er hún öllum aðgengileg.
En hvað er nágrannavarsla og af hverju ættu íbúar Dalvíkur að hefja nágrannavörslu? Nágrannavarsla hefur fyrir löngu sannað mikilvægi sitt og þá gagnvart innbrotum á heimili, í bíla og almennum þjófnaði á eigum fólks. Erlendis á nágrannavarsla sér langa sögu og hefur sannað gildi sitt. Mikil aukning hefur verið á innbrotum og þjófnaði síðasta árið og áríðandi að Íslendingar geri sér grein fyrir að innbrot og þjófnaður er ekki eingöngu bundin við Reykjavík og nágrenni. Það er enginn vafi á því að nágrannavarsla á fullt erindi til íbúa Dalvíkurbyggðar og því var það markmið sveitarfélagsins að halda kynninguna til þess að aðstoða íbúa við uppsetningu nágrannavörslu og kynna hvað hægt er að gera til þess að auka öryggi heimilisins gagnvart innbrotum.
Í kynningunni kom fram að öllu máli skiptir að þeir sem hefja nágrannavörslu „brynverji“ sitt eigið heimili. Það er ekki nóg að hengja upp skilti við inngang í götuna og ákveða að horfa eftir ókunnugum í götunni, það þarf að fara yfir heimilið og skoða það með augum innbrotsþjófsins. Í handbókinni er að finna gátlista fyrir heimilið sem auðveldar þetta verk. Listinn er þannig útbúinn að ef þú svarar Já þá eru hlutir í góðu lagi hjá þér en ef þú svarar Nei þá þarftu að athuga þá betur. Einnig fylgir ítarefni sem gefur leiðbeiningar um hvernig færa má hluti í betra horf.
Dalvíkurbyggð hvetur íbúa til þess að kynna sér nágrannavörslu og taka hana upp í sinni götu. Innbrotsþjófar leita í auknu mæli út fyrir höfuðborgarsvæðið og svo er það líka staðreynd að afar margir ferðamenn sækja staðinn heim yfir sumartímann og því er nauðsynlegt að vita eftir hverju á að horfa gagnvart „óvelkomnum gestum“ og vera búin að fara yfir heimilið þannig að þeir eigi ekki greiða leið inn. Góð samskipti nágranna og sannmæli um hvað gera skal getur skipt sköpum. Einnig er nauðsynlegt að nágrannar tali saman áður en heimilið er yfirgefið t.d. yfir helgar eða þegar farið er í frí. Mikilvægt er að íbúar geri sér grein fyrir að enginn getur sinnt nágrannavörslu nema þeir sjálfir og að árangurinn veltur á þeim sjálfum. Það er hins vegar óhemju gott að vita til þess að þegar ég fer að heiman þá gætir öll gatan að því að eignin mín sé örugg og lætur sig varða ef eitthvað óvanalegt er á seiði.
Skilti um nágrannavörslu til þess að hengja upp í götum má fá hjá endurgjaldslaust hjá Sjóvá.
Allar frekari upplýsingar veitir: Fjóla Guðjónsdóttir í síma 440 2000.
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sjóvá, www.sjova.is en einnig er hægt að hafa samband við fulltrúa Sjóvár á Dalvík fyrir nánari leiðbeiningar.