Múlakolla og Strandganga á Gönguviku

Í dag, föstudaginn 1. júlí verða farnar tvær göngur í Gönguviku Dalvíkurbyggðar.


Gengið á Múlakollu, brottför kl. 10:00. Erfiðleikastig: 2 skór
Upphaf göngunnar er við Brimnesá skammt norðan Ólafsfjarðarbæjar. Gengið er upp lyngbrekkur með stefnu á svokallaða Gvendarskál ofarlega í hlíðinni og þegar þangað er komið er skálarbarmurinn þræddur í norður þar til komið er á hrygg beint undir kollunni. Af Múlakollu er útsýni stórkostlegt og sést vítt um fjöll og dali. Fyrir fótum okkar liggja Ólafsfjörður og Eyjafjörður; ef skyggni er gott má sjá reykina á Námaskarði liðast til himins. Sama leið er gengin til baka.

Gangan tekur um 6 tíma með 750 m hækkun.


Strandganga á Árskógsströnd, brottför kl. 16:00. Erfiðleikastig: 1 skór. 

Upphaf gönguferðar er frá hlaðinu á Hellu á Árskógsströnd og gönguleiðin er um Helluhöfða. Helluhöfðinn er lágur og breiður höfði, sem gengur í sjó framan. Ströndin framan í höfðanum er fjölbreytt, og þar eru nokkrar smávíkur og klettastapar, stærst Djúpavík norðan á höfðanum, en Fagurhöfði kallast fremsti hluti hans. Við komum við í Naustavík í Hellulandi. Í víkinni var, eins og nafnið gefur til kynna, naust en þar voru einnig sjóbúðir, beituhús (íshús) og aðrar byggingar sem tengjast sjósókn. Yngstu húsin á svæðinu eru með steinsteyptum veggjum en þar eru einnig torfhlaðnar tóftir, sumar hverjar nokkuð signar og fornlegar. Á þessum stað má því sjá framfarir í húsagerð sem tengist sjósókn og hafa þar varðveist skemmtilega blandaðar byggingar frá ýmsum tímum. Eftir að hafa skoðað þetta er stefnan tekin á Árskógssand þar sem við heilsum upp á bruggverksmiðjuna Kalda og fáum ef til vill að svala sárasta þorstanum eftir.

Gangan tekur um 2 tíma með lítilsháttar lækkun. Erfiðleikastig:1 skór