Enn einn dagur gönguvikunnar runninn upp bjartur og fagur en þó smá þokuslæðingur til hafsins. Í dag skyldi haldið á Múlakollu sem er útvörður Dalvíkurbyggðar til norðurs. Gengið var upp norðan við Brimnesá í Ólafsfirði og var það röskur hópur sjö þátttakenda auk leiðsögumanns og einn hundur fylgdi eins og skugginn. Gangan hófst í þokunni en fljótlega var gengið upp úr henni og hitastigið hækkaði ört í sólinni.
Leiðin lá um móa þar sem gróður er fjölbreyttur en mest bar þó á sauðamerg og hinu undurfagra bláklukkulyngi sem bókstaflega vex þarna í breiðum.
Við gengum upp í Gvendarskál og þaðan á snjó alla leið á hæsta topp Múlakollu. Þaðan er víðsýnt mjög til allra átta og sjást óteljandi tindar Tröllaskagans og Látrastrandar, auk perlunnar Hríseyjar sem blasir við sjónum.
Fjallayoga áður en haldið var til baka eftir langt “dást að” stopp. Leiðin niður var auðveld, fótskriða í snjónum þar til lyngmóinn tók við á ný.
Afar skemmtileg gönguleið sem hægt er að mæla með.
Fleiri myndir á www.dalvik.is/gonguvika