Evrópumót í sjóstangveiði, EFSA, var formlega sett í fallegu veðri á Dalvík, sunnudaginn 9. maí. Haldið var í skrúðgöngu þátttökuþjóðanna frá Víkurröst að Bergi, íslenska hestinum var skartað og tekið var á móti mótsgestum við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Bergi. Við sama tækifæri var formleg opnun ljósmyndasýningar í sal Bergs.
Keppendur koma frá 13 félagsdeildum víðs vegar úr Evrópu, frá Belgíu, Danmörku, Englandi, Gíbraltar, Írlandi, Íslandi, Ítalíu, Noregi, Portúgal, Rússlandi, Skotlandi, Sviss og Þýskalandi. Veitt verður í sex klukkutíma hvern mótsdag í fimm daga af 11 bátum. Bátaflotinn verður stærsti eikarbátafloti sem sést hefur á þessari öld. Siglt er til veiða kl 7.00 hvern virkan dag og komið til baka á bilinu 14.00 – 16.00. Bæði er skemmtilegt og sérstaklega myndrænt þegar flotinn siglir út og einnig er gaman að koma á hafnarsvæðið þegar í land er komið og sjá t.d metfiskana sem hengdir eru á slá.
Mótinu lýkur laugardaginn 15. maí með verðlaunaafhendingu og lokahófi í Víkurröst. Fyrir þá sem vilja fylgjast með mótinu og almennri dagskrá, sjá www.dalvik.is og www.efsa.is .