Í dag rituðu fulltrúar sveitarfélaga á Norðurlandi eystra undir samstarfssamning um menningarmál. Samningurinn er gerður í tengslum við samning menntamála- og samgönguráðuneyta og Eyþings - samtaka sveitarfélaga í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum - um menningarmál, sem var undirritaður 27. apríl sl. Samstarfssamningur sveitarfélaganna gildir til loka árs 2009.
Tilgangur með samningnum er að efla menningarstarf á starfssvæði Eyþings. Menningarráð Eyþings, sem skipað er sjö fulltrúum, hefur það hlutverk að úthluta fjármagni til menningarverkefna á Norðurlandi eystra samkvæmt samningi Eyþings við ríkið og hafa eftirlit með framkvæmd þess samnings. Þrír aðalfulltrúar í menningarráði eru úr sveitarfélögum austan Vaðlaheiðar, þrír úr sveitarfélögum vestan hennar auk fulltrúa Háskólans á Akureyri.
Aðalmenn í fyrsta Menningarráði Eyþings, sem stjórn Eyþings hefur kosið, eru Björn Ingimarsson Þórshöfn, Erna Þórarinsdóttir Mývatnssveit, Guðni Halldórsson Húsavík, Ingibjörg Sigurðardóttir fulltrúi Háskólans á Akureyri, Sigrún Björk Jakobsdóttir Akureyri, Valdimar Gunnarsson Eyjafjarðarsveit og Íris Ólöf Sigurjónsdóttir Dalvíkurbyggð. Formaður er Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri
Samkvæmt samningi ríkisins og Eyþings nema framlög ríkisins til menningarmála á Norðurlandi eystra 25 milljónum króna á yfirstandandi ári, 30 milljónum á næsta ári og 31 milljón árið 2009. Sveitarfélögin á starfssvæði Eyþings leggja einnig fram fé til samningsins. Þá greiða sveitarfélögin að lágmarki þriðjung kostnaðar við Menningarráð Eyþings árið 2008 og helming kostnaðar við það árið 2009.
Menningarráð Eyþings
Árlegt framlag til Menningarráðs Eyþings nær til allra beinna framlaga ríkissjóðs til menningarmála á Norðurlandi eystra annarra en þeirra safna sem fá framlög skv. safnalögum og lögum um þjóðskjalasöfn. Þá eru framlög til Akureyrarbæjar vegna LA, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Listasafnsins á Akureyri og Amtsbókasafnsins greidd af ríkissjóði samkvæmt samningi Akureyrarbæjar og menntamálaráðuneytisins.
Menningarráð Eyþings veitir m.a. fjármagn til afmarkaðra verkefna á sviði safnastarfsemi, eflingar atvinnusamstarfsemi á sviði lista, til stuðnings við menningarstarf barna, ungs fólks og aldraðra, stuðnings við menningarhátíðir og viðburði í því skyni að auka menningarlega fjölbreytni, verkefna á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og verkefna sem hafi það hlutverk að skilgreina menningarsögulegt gildi og sérkenni sveitarfélaga og svæða.
Menningarráð auglýsir eftir styrkumsóknum og geta sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar á Norðurlandi eystra sótt um styrki. Skilyrði fyrir úthlutun er að viðkomandi umsækjandi sýni fram á jafnhátt mótframlag til verkefnisins.
Menningarráð hefur ákveðið að á yfirstandandi ári hafi þau verkefni forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:
- Áherslur á vetrartímann (vetrarmenningu og vetrarlist).
- Samstarf yfir vetrartímann milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina og uppsetningu viðburða á fleiri en einum stað.
- Nýsköpun á sviði lista og menningarstarfs.
- Skapandi störf fyrir börn og unglinga.
Ný staða menningarfulltrúa Eyþings
Á næstu dögum verður auglýst staða menningarfulltrúa Eyþings, sem hefur það hlutverk að annast daglega umsýslu fyrir Menningarráð Eyþings, vinna að þróunarstarfi í menningarmálum og menningartengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi eystra, veita ráðgjöf, vinna að kynningarmálum og efla samstarf í menningarmálum á svæðinu.