Í tilefni af áttræðisafmælisári Heimis Kristinssonar, fyrrverandi skólastjóra á Húsabakka í Svarfaðardal og kennara á Dalvík, bauð hann ásamt fjölskyldu sinni til ljósmyndasýningar í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík, með völdum myndum úr safni sínu sem telur þúsundir mynda. Myndirnar eru flestar frá árunum 1960-1980, teknar á Dalvík og í nágrenni af stöðum, fólki og mannamótum á svæðinu og sýna að auki byggðaþróun þar í gegnum tíðina. Formleg opnun sýningarinnar “Með því móti” var núna um helgina, laugardaginn 7. mars. Sýningin mun standa áfram í Bergi til 2. apríl.
Heimir hefur í gegnum tíðina verið afar duglegur við að semja lög og texta og var þar af leiðandi á opnunardegi boðið upp á tónlistaratriði þar sem nokkur af verkum og lögum Heimis voru bæði flutt og frumflutt, m.a. af Karlakór Dalvíkur sem flutti lög eftir Heimi sjálfan og þau sem eru honum kærkomin. Pálmi Óskarsson, tók einnig lagið auk Óskars Péturssonar, Álftagerðisbróður. Meðal annarra flytjenda voru síðan Sindri Már Heimisson, sonur Heimis, Júlíana Valborg Þórhallsdóttir og Þengill Sigurjónsson, barnabörn Heimis, sem bæði æfa hljóðfæraleik.
"Við áttum algjörlega frábæra stund í dag með Heimi Kristinssyni, fjölskyldu og vinum. Glæsileg dagskrá með einvala liði listamanna og kvenna, svo ekki sé minnst á einstaka ljósmyndasýningu sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Það má með sanni segja að dagurinn í dag var: “með því móti” (texti og myndir tekið af facebooksíðu Bergs menningarhúss).