Eyþór Ingi Gunnlaugsson er svo sannarlega búinn að heilla þjóðina með söng sínum og framkomu í þættinum Bandinu hans Bubba á Stöð 2. Eyþór Ingi söng tvö lög síðastliðinn föstudag með glæsibrag. Seinna lagið þó með meiri tilþrifum og þannig að allir sem fylgdust með fengu gæsahúð og uppgötvuðu að þeir væru að horfa á eitthvað sérstakt. Lagið var úr söngleiknum Jesus Christ Superstar og eins og Eyþór sagði sjálfur einni bestu rokkóperu sem samin hefur verið. Dómararar þáttarins héldu ekki vatni yfir flutningnum og fullyrti Bubbi Morthens yfirdómari að Eyþór væri eitt almesta efni sem komið hefði fram á Íslandi. Þjóðin virðist sammála þar sem Eyþór hefur fengið afburða símakosningu í þáttunum. Eftir standa tveir keppendur og næstkomandi föstudag verður úrslitaþáttur. Í þeim þætti mun Eyþór Ingi flytja þrjú lög. "Gull" eftir Gunnar Þórðarson, "Þú átt mig ein" sem Vilhjálmur Vilhjálmsson gerði ódauðlegt og "Göngum yfir brúna" eftir Mannakorn.
Hvort sem Eyþór Ingi vinnur keppnina um söngvarastöðuna í Bandinu hans Bubba eða ekki er hér á ferðinni frábær listamaður sem við getum verið stolt af hér í Dalvíkurbyggð.
Frammistöðu Eyþórs Inga er hægt að sjá á
Youtube.com
Hér er svo lagið sem færði honum sigur í
Söngkeppni framhaldsskólanna
Eyþór Ingi Gunnlaugsson er aðeins 18 ára. Eftirhermur hans af persónum Ladda hafa þótt óborganlegar en þær lék Eyþór frá 10 ára aldri. Eyþór tók þátt í unglingauppfærslum Leikfélags Dalvikur 14 og 15 ára. Á 15 ári var Eyþór Ingi leikari hjá Leikfélagi Akureyrar í leikritinu Olíver, sem varð einn vinsælasti söngleikur LA frá upphafi.
Eftir að Eyþór Ingi fór í framhaldsskóla tók hann þátt í sameiginlegri uppfærslu VMA og MA á Jesus Christ Superstar og lék hann þar aðalhlutverkið sem Jesú. Eyþór fékk mikið lof í þeirri sýningu, fyrir þá miklu stjórn sem hann hafði á rödd sinni. Árið eftir tók hann þátt í söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd VMA. Ekki er að spyrja að því, en Eyþór vann þá keppni með yfirburðum. Eyþór Ingi tók einmitt vinningslagið aftur á Söngkeppni framhaldsskólanna síðastliðið laugardagskvöld. Lagið núna hljómaði ennþá betur og greinilegt að með meiri reynslu og æfingu er Eyþóri Inga sífellt að fara fram. Bandið hans Bubba hefur gert honum gott hvað það varðar að þar er hann undir handleiðslu fagfólks í raddbeitingu og framkomu.