Ágæt mæting var á málþingið „Lífið eftir göng" sem haldið var á Ólafsfirði síðasta laugardag. Um 70 manns frá Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvíkurbyggð sóttu þingið þar sem rætt var um tækifæri í atvinnu- og menntamálum við utanverðan Eyjafjörð með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Málþinginu var skipt í þrjá þætti þar sem viðfangsefnin voru "Uppbygging atvinnulífs við utanverðan Eyjafjörð", "Ferðamál til framtíðar" og "Framhaldsskólinn" og ræddu framsögumenn þessi málefni frá ýmsum sjónarhornum. Í lok hvers þáttar var svo pallborðsumræða. Niðurstöður umræðna voru eftirfarandi:
Er grundvöllur og þörf fyrir stofnun þekkingarseturs við utanverðan Eyjafjörð?
Þekkingarsetur við utanverðan Eyjafjörð væri kærkomin viðbót við atvinnulífið við utanverðan Eyjafjörð. Hér er fyrir góður grunnur í atvinnufyrirtækjum með mikla reynslu, símenntunarmiðstöðvum og söfnum, og unnið er að frekari uppbyggingu fræðastarfa, bæði innan þeirra safna og setra sem þegar eru starfandi og nýjum sem unnið er að. Svæðið býr einnig að góðri reynslu af framhaldsskóladeild í Ólafsfirði og fiskvinnslubraut á Dalvík. Tilkoma nýs framhaldsskóla og sameining svæðisins í eitt þjónustusvæði með Héðinsfjarðargöngum styrkir enn frekar þennan grundvöll. Þekkingarsetur gæti orðið miðdepill í samstarfi fræðslustofnana, safna, setra og fyrirtækja á svæðinu um rannsóknir, þróun og fræðslu sem byggja á sérstöðu svæðisins og þekkingu og reynslu íbúa þess. Það ber því að hefjast handa við að koma á fót þekkingarsetri á Tröllaskaga hið fyrsta.
Er ferðamennska framtíðin?
Tröllaskagasvæðið er eitt besta svæði á landinu til að stunda fjallgöngur og aðra útivist, sumar sem vetur. Héðinsfjörður, friðland Svarfdæla, Hvanndalir og fleiri slíkir staðir eru stórkostlegir staðir til náttúruskoðunar fyrir ferðamenn. Standa þarf vörð um náttúrufarið og tryggja að þessar náttúruperlur glatist ekki, líkt og gert hefur verið í friðlandi Svarfdæla. Friðun Héðinsfjarðar væri stórt skref í þessa átt. Söfnin á svæðinu hafa mikið aðdráttarafl og ótrúlegur árangur hefur náðst við uppbyggingu þeirra. "Markaður menningarinnar" er réttnefni á starfsemi safnanna. Framundan eru spennandi og metnaðarfull verkefni við áframhaldandi þróun þeirra.
Möguleikar ferðaþjónustu á svæðinu aukast verulega með tilkomu ganganna, ef við berum gæfu til að stilla saman strengi, koma á samhæfðum samgöngum milli staða og fylgjum eftir þeim möguleikum sem göngin gefa með öflugri og markvissri markaðssetningu. Margs konar nýjungar í ferðaþjónustu geta orðið að veruleika ef menn bæru gæfu til að standa saman að verkefnunum. Bretta þarf upp ermarnar til að láta hugmyndirnar verða að veruleika.
Ferðamannaiðnaður sem byggir á sérstöðu svæðisins, náttúrufari og menningu á sér góða framtíð á Tröllaskaga sem ein meginstoða atvinnulífsins, í góðum tengslum við hinar hefðbundnu atvinnugreinar.
Hvernig má tryggja tengsl framhaldsskóla og atvinnulífs á svæðinu?
Í frumvarpi að framhaldsskólalögum sem nú er í meðförum Alþingis er talað um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs. Lögð er áhersla á aukið sjálfstæði framhaldsskóla og frelsi varðandi samsetningu námsbrauta, námsfyrirkomulags og lokaprófa. Verði frumvarpið að lögum skapar það ýmiss tækifæri í mótun nýs framhaldsskóla.
Fundargestir voru sammála um það að framhaldsskólinn þyrfti að vera í sterkum tengslum við atvinnulífið og ætti að nýta sér styrkleika svæðisins. Þar vegur sjávarútvegurinn þyngst. Þá þarf að styrkja iðn- og verkmenntun og skoða sérstöðu náttúru og íþrótta auk tengsla við menningu og sögu staðarins.
Miklar væntingar eru til framhaldsskólans og því mikilvægt að vel takist til að móta og byggja upp nýjar áherslur í námsframboði, en um leið að byggja á því sem fyrir er. Brýnt er að móta áherslurnar og velja úr þeim fjölmörgu hugmyndum sem uppi eru. Framhaldsskólinn þarf að skapa námsmöguleika sem svarar þörfum nemenda á svæðinu og verða í fararbroddi samkvæmt hinum nýju lögum.