Líf og fjör á hátíðarhöldum vegna 17. júní

Líf og fjör á hátíðarhöldum vegna 17. júní

17. júní var haldinn hátíðlegur í Dalvíkurbyggð í gær í blíðskaparveðri. Dagskráin var nokkuð hefðbundinn en hún hófst með 17. hlaupinu á Dalvíkurvelli.
Þaðan var svo skrúðganga að menningarhúsinu Bergi þar sem Fjallkonan sem í ár var Silja Dröfn Jónsdóttir las ljóð eftir Hjalta Haraldsson frá Ytra-Garðshorni

Hátt brennur himinljós,
hlýnar um dali.
Brosleitar björk og rós
bregðast á tali.

Leikur við ljósa drós
ljúfvindur svali.
Hoppar um hjallagil
hýr lindarseyra.
 
Ljúft þetta lindarspil
lætur að heyra.
Harðsvipult hamraþil
hlær út að eyra.
 
Leikur við skýjaskör
skarfur og kjói.
Lómur og léttur spör,
langnefja spói.
 
Brosa með blómavör
brekka og mói.
Ó þessi yndistíð
æsku og blóma.
 
Líf allt um löndin víð
leysir úr dróma.
Lof þér hver hóll og hlíð
og himnarnir óma.

 

Ræðumaður dagsins var Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir Sveitarstjóri.

Þröstur Ingvarsson flutti svo nokkur lög auðvitað öll á íslensku. 

Eftir hin hefðbundnu hátíðarhöld voru svo hoppukastalar og hin víðfræga sápurennibraut í kirkjubrekkunni, ásamt sápufótbolta.