Föstudagskvöldið 30. október n.k. mun Leikfélag Dalvíkur frumsýna sakamálafarsann Blúndur og blásýru eftir Joseph Kesselring, í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar. Leikstjóri er Jón Stefán Kristjánsson, lýsingu hannar Pétur Skarphéðinsson og um sviðsmynd sá Friðrik Sigurðsson.
Alls koma 20 manns að uppfærslunni þar af 11 leikarar í misstórum hlutverkum. Leikendur eru: Sólveig Rögnvaldsdóttir, Herdís Valsdóttir, Hjörvar Óli Sigurðsson, Friðrik Sigurðsson, Sigurbjörn Hjörleifsson, Elvar Bjarki Friðriksson, Árni Hallur Júlíusson, Skapti Runólfsson, Valgerður Júlíusdóttir, Kristján Guðmundsson og Freyr Antonsson.
Leikritið segir frá tveimur eldri systrum, piparmeyjunum Abby og Mörthu sem búa í ættarhúsinu ásamt frænda sínum sem gengur ekki heill til skógar andlega séð. Auk þess leigja þær út herbergi fyrir einhleypa herramenn. Þær systur hafa orð á sér fyrir að vera einstök gæðablóð en ekki er allt sem sýnist. Þegar annar frændi birtist skyndilega ásamt heitkonu sinni, með að því er virðist óhreint mjöl í pokahorninu, fara ýmsir hlutir að gerast og leyndarmál afhjúpast.
Blúndur og blásýra (Arsenic and old lace) var frumsýnt á Broadway árið 1941 þar sem leikritið gekk í fjögur ár samfleytt. Frank Capra gerði kvikmynd eftir leikritinu, sem frumsýnd var árið 1944, mynd sem talin hefur verið ein glæsilegasta gamanmynd kvikmyndasögunnar. Blúndur og blásýra var fyrst sýnt hérlendis í Iðnó í október árið 1947.
Leikfélag Dalvíkur fagnar 65 ára afmæli á þessu ári og í tilefni af því átti að taka til sýninga Víkursamfélagið eftir Guðlaug Arason sem Arnar Símonarson gerði leikgerð af. Sólveig Rögnvaldsdóttir, formaður LD segir að sú sýning sé mjög margra leikara og ekki hafi tekist að manna hana að þessu sinni. Því var ráðist í að taka verk með færri hlutverkum og varð Blúndur og blásýra fyrir valinu.
Frumsýning er sem áður segir föstudaginn 30. október kl. 20:30, og næstu sýningar verða:
2. sýning sunnudaginn 1. nóvember kl. 20:30
3. sýning föstudaginn 6. nóvember kl. 20:30
4. sýning laugardaginn 7. nóvember kl.17:00