Laust til umsóknar - Stuðningsþjónusta fyrir fatlaða einstaklinga

Laust til umsóknar - Stuðningsþjónusta fyrir fatlaða einstaklinga

Félagsþjónusta Dalvíkurbyggðar óskar eftir fólki til starfa við stuðningsþjónustu með fatlaða einstaklinga í tímavinnu. Vinnutími er breytilegur og umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

Hvað er stuðningsþjónusta?
Stuðningsþjónusta er persónulegur stuðningur við einstakling sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun og veita viðkomandi félagslegan stuðning á ýmsum sviðum. Stuðningsþjónusta stuðlar meðal annars að því að hver og einn getið notið félags- og menningarlífs á eigin forsendum. Um er að ræða allt að 15 tímar á mánuði.

Starfið felst í að aðstoða einstaklinga í ýmsum daglegum athöfnum, veita persónulega ráðgjöf, sem miðar einkum að því að rjúfa félagslega einangrun, innan sem utan heimilis. Sem dæmi má nefna að fara í bíó, leikhús, kaffihús, bókasafn, eiga notalegt spjall, bíltúr gönguferð, rækt, sund og fleira.

Hæfniskröfur:

  • Hlýlegt viðmót, jákvæðni og umhyggja
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Frumkvæði í starfi og geta til að vinna sjálfstætt
  • Að sýna ábyrgð og vera ábyrgðarfullur
  • Að vera hugmyndaríkur og sveigjanlegur
  • Heint sakavottorð í samræmi við lög og reglur
  • Bílpróf

Ofangreindar hæfniskröfur eru ekki í áhersluröð. Auk þeirra hæfniskrafna sem tilgreindar eru er leitað að lausnamiðuðum, metnaðarfullum einstaklingi í starfið sem ber hag þjónustunotenda fyrir brjósti.

Umsóknarfrestur er til og með 12.febrúar 2023

Við ráðningu eru jafnréttissjónarmið jafngild öðrum málefnalegum sjónarmiðum og hvetjum við áhugasama að sækja um, óháð kyni og uppruna. Vakin er athygli á að þörf er á fleiri körlum til starfa á verksviðinu. Greitt er samkv. kjarasamningi Sambands ísl. sveitarfélaga og Kjalar.

Sótt er um starfið í gegnum Íbúagátt Dalvíkurbyggðar. Með umsókn skal skila ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjenda.

Upplýsingar gefur Þórhalla Franklín Karlsdóttir (Tóta), ráðgjafaþroskaþjálfi félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar, netfangið: tota@dalvikurbyggd.is eða í síma 460-4900.