Nú um áramótin lét Þóra Rósa Geirsdóttir af störfum fyrir Dalvíkurbyggð og starfar hún nú sem sérfræðingur við Háskólann á Akureyri. Þóra hóf störf sem kennari við Dalvíkurskóla haustið 1973. Hún starfaði sem kennari og sérkennari við Dalvíkurskóla til ársins 1992 er hún réðst til Húsabakkaskóla sem kennari og sérkennari. Hún varð svo skólastjóri við Húsabakkaskóla frá 1996 til 2001 þegar hún tók við starfi kennsluráðgjafa í leik- og grunnskólum Dalvíkurbyggðar, Hríseyjar og Fjallabyggðar, nú síðast eingöngu Dalvíkurbyggðar. Þóra hefur verið stundakennari við grunnskóladeild Háskólans á Akureyri frá 1998 en eins og áður sagði hefur hún nú verið ráðinn sérfræðingur við Háskólann á Akureyri.
Þóra hefur tekið virkan þátt í félagsstörfum fyrir Dalvíkurbyggð, setið í nefndum og í bæjarstjórn. Hún á nú sæti í menningarráði.
Þóra hefur einnig verið virk í faglegri vinnu og hefur átt þátt í þróunarverkefnum innan skólanna og samningu og útgáfu námsefnis, bæði í lestri og stærðfræði.
Þóra var kvödd af samstarfsfólki á bæjarskrifstofunni á gamlársdag þar sem henni var færð kveðjugjöf og henni þökkuð þjónustan og samstarfið í öll þessi ár og henni jafnframt óskað velgengni í nýju starfi.