Hópur kvenna í Dalvíkurbyggð sem kallar sig Bjargirnar hefur komið reglulega saman frá því fljótlega uppúr bankahruninu og lesið sér til ánægju og sálubjargar hið góða gamla leikrit Matthíasar Jochumssonar, Skugga-Svein sem er öllum í byggðarlaginu sem komnir eru um og yfir miðjan aldur í fersku minni frá því það var sýnt hér síðast fyrir rúmum fjörutíu árum. Þær miklu breytingar og umsnúningur sem hefur orðið á íslensku samfélagi síðustu mánuðu hefur vitaskuld haft sín áhrif á leikhópinn eða leshópinn því þær stöllur hafa bætt um betur og umsnúið leikritinu svo um munar. Auk þess að stytta það verulega og fækka persónum um helming hafa þær umbreytt þeim karlpersónum sem eftir standa í konur. Nú heita þær, svo einhverjar séu nefndar, Sigríður í Dal, Lárensía sýslumaður, Jóna sterka og útlagarnir Skugga-Björg, Katla skræka, Ögmunda og Haralda. Þar af leiðandi heitir þessi leikgerð Skugga-Björg. Eftir að hafa skemmt sjálfum sér konunglega á þessum samlestrum sínum hafa Bjargirnar nú ákveðið að leyfa öðrum að njóta með sér hafa því opinn leiklestur á Skugga-Björgu í Ungó, fimmtudagskvöldið 12. feb n. k, kl 20:30. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Ekki er fyrirhugaður annar leiklestur í bili.