Konur sem frumkvöðlar - möguleikar þeirra og hindranir
Ráðstefnan er hluti af ráðstefnuröð sem að standa Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Atvinnu- og jafnréttisráðgjafa Suður- og Norðausturkjördæma.
Fyrirtækin sýna afar fjölbreytta framleiðslu, allt frá útsaumi til gróðursetningarvéla, frá heilsuvörum til hugbúnaðar. Eins og gefur að skilja þá er það talsverð fyrirhöfn fyrir einstaklinga að taka þátt í sýningaröð eins og þessari. Sumar kvennanna hafa fylgt sýningunum á alla staði þó svo að þær séu í minnihluta. Fjöldi þeirra sem fylgt hafa fyrirtækjum sínum á sýningarnar er sífellt að aukast og mun sýningin á Akureyri verða fjölmennust hvað það varðar. Þar munu tæplega 30 sýnendur kynna starfsemi fyrirtækja sinna auk þess sem hátt í 15 fyrirtæki til viðbótar senda sýnishorn og kynningarefni án þess að forsvarskonur þeirra verði á staðnum.
Athafnakonur er fjölbreytt, áhugaverð og umfram allt skemmtileg sýninga-og ráðstefnuröð sem á erindi við alla þá er láta sig stefnumótun í atvinnumálum þjóðarinnar varða. Aðstandendur Athafnakvenna skora á fólk að koma við í Ketilhúsinu á Akureyri dagana 21.-22. nóvember og ræða við Athafnakonur um það sem brennur á þeim. Telja má víst að sýn þeirra á atvinnumál og stoðkerfi atvinnulífsins sé nokkuð önnur en sú sem endurspeglast hvað oftast í fjölmiðlum og umræðum í samfélaginu. Það er bitur staðreynd að kvenfyrirtæki bera skarðan hlut frá borði þegar kemur að opinberum styrkveitingum til fyrirtækja. En á rástefnunni á laugardeginum sem haldin verður í Deiglunni mun Sigríður Elín Þórðardóttir sérfræðingur á Byggðastofnun einmitt kynna niðurstöður könnunnar sinnar á skiptingu opinberra styrkveitinga á milli kynjanna.
Sýningin í Ketilhúsinu hefst á föstudag en ráðstefnan sjálf er haldin á laugardag.