Alls greiddu 1018 íbúar atkvæði í Dalvíkurbyggð í alþingiskosningunum sem fram fóru á laugardaginn var. Á kjörskrá voru 1291 og því var kjörsókn 78,85%.
Í það heila greiddu 193.792 kjósendur atkvæði í alþingiskosningunum á landsvísu en það eru 81,4% þeirra 237.957 sem eru á kjörskrá. Þetta er minnsta þátttaka í alþingiskosningum frá lýðveldisstofnun. Kjörsókn í Dalvíkurbyggð var því rétt undir kjörsókn á landsvísu.
Á vef mbl.is kemur fram að kjósendur í Norðvesturkjördæmi mættu best á kjörstað eða 83,6% þeirra sem voru á kjörskrá. Flestir sátu heima í Reykjavíkurkjördæmi norður en þar tóku 78,9% þátt í kosningunni á laugardag. Þátttaka í alþingiskosningum var löngum um og yfir 90% á síðari hluta 20. aldar. Frá 1991 var þátttakan 87-88% í þrennum kosningum. Næstminnst var hún vorið 2007 (83,6%) en vorið 2009 var hún 85,1%. Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum var einnig með minnsta móti 2010 (73,5%) í sögulegu samhengi. Hún var 5,2 prósentustigum minni þá en þátttakan 2006.