Kalskemmdir á túnum í Dalvíkurbyggð.

Kalskemmdir á túnum í Dalvíkurbyggð.

Kalskemmdir eru víða á túnum í sveitarfélaginu og fjallaði sveitarstjórn um málið á 370. fundi sínum í gær.

Tún á Norðausturlandi eru víða mjög illa leikin, miklar kalskemmdir hafa komið í ljós á túnum bænda, einna helst í vestanverðum Eyjafirði. Ástandið er verst í Svarfaðardal og þar eru dæmi um að 90% túna séu ónýt. Er kalið það versta sem sést hefur í 40 ár!
Það er því mikil vinna, að græða upp túninn og því fylgir gríðarlegur kostnaður. Í Dalvíkurbyggð er áætlað að um 1200 hektarar séu skemmdir og kostnaður vegna uppgræðslu og fóðurkaupa gæti numið 200 milljónum. Bjargráðasjóður á að bæta það tjón sem verður vegna kals, en þar er fjármögnun ótrygg, þó hefur ríkið ávallt brugðist við stórtjónum af völdum náttúrunnar. Sveitarstjórn telur mjög mikilvægt er að fjárlaganefnd tryggi fjármögnun þannig að bændum verði bættur skaðinn. Tjónið er grafalvarlegt og ógnar erfiðri afkomu bænda. Mikilvægt er að samfélagið sýni stuðning og þrýsti á um að staðið verði við að bæta það tjón sem orðið er. Sveitarstjórn felur byggðaráði og umhverfis- og dreifbýlisráði að fylgja málinu eftir og fylgjast grannt með framvindu.