Þriðjudaginn 7. júní 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar í blíðskaparveðri, sólskini og 15 stiga hita, en í síðustu spá veðurklúbbsins hafði einmitt verið gert ráð fyrir góðu veðri þennan dag. Fundarmenn voru 18 talsins, þrátt fyrir að í mörgu sé að snúast yfir hábjargræðistímann.
Við athugun á veðurspá og veðurfarssögu síðasta mánaðar voru klúbbfélagar almennt þeirrar skoðunar að veðurspáin hefði verið þó nokkuð nákvæm þó svo að veðurhvellurinn væri örlítið minni en búisst var við. Frávik voru þó fyllilega innan skekkjumarka.
Nýtt tungl kviknar sunnudaginn 5. júní í norðri kl. 03:00. Gert er ráð fyrir svipuðu veðri og verið hefur. Heldur minna sólfar og ekki verulegur lofthiti. Ótímabært er að segja fyrir um berjasprettu sumarsins, en það verður tekið fyrir síðar.
Veðurvísa júní og júlí mánaðar.
Í júní sest ei sólin
þá brosir blómafjöld.
Í júlí baggi er bundinn
og borðuð töðugjöld.
Með góðri kveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ