Á skólaárinu 2013 - 2014 unnu starfsmenn og nemendur Dalvíkurskóla að innleiðingu nýrrar aðalnámskrár grunnskóla. Seinni hluta skólaársins var sérstaklega leitast við að innleiða grunnþáttinn JAFNRÉTTI og var ýmsum aðferðum beitt til þess. Starfsmenn skólans vörðu einum starfsdegi á námskeiði um jafnrétti og í framhaldinu voru haldnir vinnufundir þar sem meðal annars var rætt um stöðu jafnréttismála í skólanum og hvernig mætti flétta jafnrétti inn í allt skólastarf. Starfsmönnum var því næst skipt í minni hópa sem skráðu niður hugmyndir að jafnréttismiðaðri vinnu með nemendum og útbjuggu verkefni. Óhætt er að segja að margar góðar hugmyndir hafi kviknað, svo margar að ekki gafst tími til að hrinda þeim öllum í framkvæmd á skólaárinu. Þær munu því verða nýttar áfram á komandi árum en nú verður fjallað lítillega um nokkur verkefni sem unnin voru með nemendum þetta skólaárið, meðal annars með það að markmiði að efla jafnréttishugsun þeirra og hæfni til að setja sig í spor annarra.
8. bekkur vann með fréttir líðandi stundar og ræddi um þær með jafnrétti í huga. Til dæmis var skoðuð frétt um réttarhöldin yfir Oscar Pistorius, einfætta hlauparanum sem skaut kærustu sína til bana, og velt fyrir sér hvort réttarhöldin hefðu fengið jafnmikla umfjöllun í fjölmiðlum ef Pistorius hefði til dæmis verið svartur, tvífættur, kona eða frá Evrópulandi. Út frá þessum vangaveltum sköpuðust fjörugar umræður og rökræður.
Í samfélagsfræði lærðu 5. og 6. bekkingar um Rómverja til forna og þá var til dæmis fjallað um skylmingarþræla sem börðust í hringleikjahúsum, sem og annars konar þræla. Út frá þeirri umfjöllun var mikið rætt um jafnrétti og mannréttindi og spunnust þær umræður út í tal um þrælahald í Bandaríkjunum og víðar, barnaþrældóm í fátækum löndum, kynlífsþrældóm og fleira. Margir urðu mjög undrandi, svekktir og reiðir yfir því að þrælahald finnst ennþá í heiminum í dag.
Í íslenskuhringekju á unglingastigi var fjallað um birtingamyndir auglýsinga og meðal annars skoðað og rætt um myndmál, sálfræði, markhópa, staðalímyndir og klámvæðingu í auglýsingum. Í dag taka eflaust margir unglingar skólans mun betur eftir öllum þeim duldu skilaboðum sem leynast í auglýsingum og eru meðvitaðri um hvernig er reynt að lokka fólk til að kaupa ákveðnar vörur.
Nemendur 4. bekkjar kynntu sér Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og leystu í framhaldinu ýmis verkefni sem hægt er að finna á vefsíðunni barnasattmali.is. Jafnframt fjölluðu þeir um kynhlutverk og „hefðbundin“ kynjastörf þegar þeir lærðu um lífið á Íslandi í kringum aldamótin 1900 og veltu fyrir sér hvað hefur breyst í þeim efnum.
Á unglingastigi var haldinn fyrirlestur um klám- og kynlífsvæðingu og var meðal annars komið inn á hvernig skírskotun til kynlífs og kláms hefur aukist í tónlistarmyndböndum og auglýsingum á síðustu árum. Skilaboðin sem börn og unglingar fá frá þessum
myndböndum og auglýsingum eru afar óábyrg og ber svo sannarlega að líta alvarlegum augum, ræða og útskýra.
Árlega tekur skólinn þátt í UNICEF hlaupi til styrktar fátækum börnum úti í heimi. Þá safna nemendur áheitum fyrir hverja 400 metra sem þeir hlaupa og er peningunum sem safnast varið í hjálparstarf. Í okkar huga er þetta verkefni frábær leið til þess að fræða nemendur um jafnrétti og fá þá til að hugsa um að því miður búa ekki öll börn við samskonar jafnrétti og sömu kjör. Í ár fræddust allir nemendur skólans um Afríkuríkið Malí og kjör margra barna sem þar búa og í framhaldinu söfnuðu þeir 584.758 krónum sem verða til dæmis nýttar til að veita börnum í Malí menntun og heilsugæslu. Þess má geta að frá árinu 2008 hafa nemendur Dalvíkurskóla safnað rúmum 3,6 milljónum fyrir UNICEF og svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að stuðla að meira jafnrétti í heiminum.
Í enskuhringekju á unglingastigi voru jafnrétti og mannréttindi meginþemað í viðfangsefnum nemenda. Meðal annars var unnið með:
- Berlínarmúrinn og réttinn til að ráða búsetu og vera frjáls ferða sinna.
- Malala, unglingsstelpu frá Pakistan sem berst fyrir því að stúlkur megi ganga í skóla.
- Lagið Define Me með Ryan Amador og Jo Lampert sem fjallar um samkynneigð og að kynhneigð eigi ekki að stjórna því hvort fólk nýtur jafnréttis.
Nemendur 5. bekkjar gerðu veggspjöld með jafnréttisslagorðum. Til að byrja með hjálpuðust allir við að safna saman hugmyndum að slagorðum og svo útbjó hver nemandi veggspjald með einu slagorði og myndskreytti það. Mörg flott veggspjöld urðu til við þessa vinnu og prýða nokkur þeirra einmitt þessa grein.
Í þjóðfélagsfræði á unglingastigi var mikið unnið með jafnrétti. Meðal annars var rætt um staðalímyndir og gerð verkefni um heimilisstörf og atvinnu þar sem “hefðbundnum kynjastörfum” var kollvarpað. Einnig var rætt um jafnrétti út frá mannréttindum og réttindi unglinga á Íslandi borin saman við ýmsar aðrar þjóðir, til dæmis réttindi til að njóta menntunar. Útgangspunkturinn var sá að fá nemendur til að skilja hversu mikil mannréttindi felast í því að fá að ganga í skóla.
Dæmin sem hér hafa verið gefin lúta öll að ákveðnum verkefnum sem sérstaklega voru lögð fyrir nemendur með grunnþáttinn jafnrétti í huga. Að sjálfsögðu tengist jafnrétti ekki eingöngu sérstökum verkefnum heldur einnig skólabrag, samskiptum og framkomu, vinnubrögðum sem tíðkast í skólanum, virkni nemenda og því að grípa tækifærið þegar það gefst til að leiða umræðuna inn á jafnréttissjónarmið. Jafnrétti fléttast því óhjákvæmilega inn í allt skólastarf. Í stærðfræði á unglingastigi er til að mynda mikið jafnrétti fólgið í því að nemendur vinna eftir lotuseðlum á sínum hraða og ákveða sjálfir hversu djúpt þeir fara í námsefnið og í 7. bekk fer stór hluti námsins fram í gegnum Ipad þar sem nemendur ráða sjálfir hvaða verkefni þeir vilja leysa hverju sinni.
Í nokkrum bekkjum yngri deildar voru lögð fyrir áhugasviðsverkefni þar sem nemendur fengu algjörlega frjálsar hendur um hvað þeir vildu kynna sér og fræðast um og hvernig þeir vildu svo skila frá sér því sem þeir lærðu. Afraksturinn var fjöldi áhugaverðra og flottra verkefna, til dæmis:
- Bækur og bæklingar um höfrunga, hunda, risaeðlur, fræga fótboltakappa, Rússland og byssur.
- Veggspjöld um mannslíkamann, Ástralíu, fæðuofnæmi, ensk fótboltalið og reikistjörnur.
- Skjásýningar um fána Norðurlandanna, fótboltaliðið Liverpool, Ólympíuleikana, Grímsey og hin og þessi lönd.
Á unglingastigi unnu nemendur einnig að áhugasviðsverkefnum og settu upp kynningarbása á opnu húsi þar sem afraksturinn var til sýnis. Þar mátti meðal annars sjá verkefni um náttúruljósmyndir, hestamennsku, íslenska kvennalandsliðið í fótbolta, skíði, tölvuleiki, andlitsförðun, myndlist, golf og fatahönnun og var augljóst að margir höfðu lagt mikla vinnu í verkefni sín og að setja upp bása sem vektu áhuga fólks til að skoða.
Á komandi skólaári verður haldið áfram að innleiða nýja aðalnámskrá grunnskóla og verða þá aðrir grunnþættir sérstaklega teknir fyrir, auk þess sem haldið verður áfram að tengja grunnþætti þessa skólaárs, sköpun og jafnrétti, inn í skólastarfið á sem fjölbreyttastan hátt.
Bestu kveðjur, Erna Þórey Björnsdóttir, verkefnastjóri innleiðingar nýrrar aðalnámskrár