Í tilefni af lýsingu á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar bauð íþrótta- og æskulýðsráð til mannfagnaðar fimmtudaginn 3. janúar í Bergi. Athöfnin hófst á því að Dalvíkurbyggð og íþróttafélögin UMF Svarfdæla, UMF Reynir, UMF Þorsteinn Svörfuður, sundfélagið Rán, hestamannafélagið Hringur, golfklúbburinn Hamar, blakfélagið Rimar og Skíðafélag Dalvíkur skrifuðu undir styrktar- og samstarfssamninga.
Íþrótta og æskulýðsráð veitti styrki úr Afreks- og Styrktarsjóði og hlutu þau Anna Kristín Friðriksdóttir, Júlía Ýr Þorvaldsdóttir, Sigurður Ingvi Rögnvaldsson, Þórdís Rögnvaldsdóttir, Unnar Már Sveinbjarnarson, Ólöf María Einarsdóttir og golfklúbburinn Hamar styrki úr sjóðnum. Jafnframt ákvað íþrótta- og æskulýðsráð að veita sérstakar viðurkenningar til barna- og unglingaráðs í knattspyrnudeild UMF Svarfdæla fyrir öflugt starf í stúlknaflokkum og fjölgun þátttakenda af erlendum uppruna, Skíðafélags Dalvíkur vegna Stjörnuhóps, frjálsíþróttadeildar UMF Svarfdæla til búnaðarkaupa og Grjótglímufélagsins til frekari uppbyggingar á klifurvegg.
Íþrótta- og æskulýðsráð veitti heiðursviðurkenningu til Björgvins Björgvinssonar skíðamanns. Faðir Björgvins og sonur veittu viðurkenningunni móttöku.
Tilnefndir til Íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2012 voru þau Agnar Snorri Stefánsson hestamannafélaginu Hring, Bessi Víðisson Dalvík/Reyni, Jakob Helgi Bjarnason Skíðafélagi Dalvíkur, Tinna Karen Arnardóttir sundfélaginu
Rán, Júlía Ýr Þorvaldsdóttir sundfélaginu Óðni, Júlíana Björk Gunnarsdóttir frjálsar UMF Svarfdæla, Ólöf Rún Júlíusdóttir UMF Reynir og Sigurður Ingvi Rögnvaldsson golfklúbbnum Hamri.
Þrír efstu í kjöri voru þeir Bessi Víðisson, Agnar Snorri Stefánsson og Jakob Helgi Bjarnason.
Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2012 er Jakob Helgi Bjarnason skíðamaður í Skíðafélagi Dalvíkur.
Jakob Helgi Bjarnason hefur lagt mikið á sig til að ná langt í skíðaíþróttinni og er hann í fremstu röð í heiminum í sínum aldursflokki. Árið 2012 varð Jakob Helgi tvöfaldur Íslandsmeistari í karlaflokki þá
16 ára, hann var einnig bikarmeistari SKÍ í 15 – 16 ára flokki og unglingameistari í svigi, alpatvíkeppni og samhliðasvigi.
Íþrótta- og æskulýðsráð óskar öllum þeim sem tilnefndir voru til hamingju með tilnefningar og Jakobi Helga til hamingju með að vera Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2012.