Þann 21. október n.k. verður haldið íbúaþing í Dalvíkurbyggð þar sem þú getur komið með viðhorf þín og hugmyndir um þróun sveitarfélagsins á næstu árum.
Íbúaþingið verður haldið í Dalvíkurskóla, 21. október á milli 10:00-17:00. Þér er frjálst að mæta hvenær sem er og vera með allan daginn eða hluta úr degi. Niðurstöður þingsins verða svo dregnar saman í lok dag.
Íbúaþing eru skemmtileg og lifandi aðferð sem gefur öllum íbúum kost á því að tjá sínar hugmyndir og skoðanir án þess þó að halda ræður. Á íbúaþinginu verða bæði umræðuhópar um ákveðin viðfangsefni þar sem þú getur sett fram skoðanir þínar og skipst á skoðunum við aðra og vinnuhópar þar sem tiltekin svæði eru skoðuð og fólk getur t.d. velt fyrir sér ýmsum möguleikum um samgöngur, þróun byggðar, atvinnumál og uppbyggingu þjónustu. Þú getur líka sett fram skoðun á því hvar þú vilt hafa leiksvæði, útivistarsvæði, frístundabyggð eða annað sem þér finnst skipta máli fyrir lífsgæði hér í byggðalaginu. Já, hvað viltu fyrir börnin þín?
Gert er ráð fyrir því að efniviður fáist úr vinnunni á íbúaþinginu til að móta leiðarljós, framtíðarsýn, markmið og stefnuleiðir fyrir nýtt aðalskipulag Dalvíkurbyggðar og eru því allir hvattir til að leggja sitt af mörkum og taka virkan þátt.