Á sjötta degi gönguvikunnar var farið á Hvarfshnjúkinn í 20° hita en sólarlausu og skilyrði til fjallgöngu eins góð og best verður á kosið.
Það voru 20 glaðbeittir göngumenn auk farastjóra sem lögðu upp frá Hofsá kl 10.15 og stefndu upp með Hofsánni, framhjá Goðafossi sem eins og önnur vatnsföll hér þessa daganna er í miklum ham. Síðan var tekin stefnan á fjallið með reglulegum vatns-þéttingar og sögustoppum. Þar til komið var að Skriðukotsvatni í 550 metra hæð yfir sjó en þar var tekið fyrsta alvöru kaffi og hvíldarstopp. Eftir kaffið var svo haldið uppá eggjar og þær gengnar allargötur uppá topp í 1035 m.h. yfir sjáfarmáli.
Af Hvarfshnjúk er einstakt útsýni yfir Svarfdælska og Skíðdælska byggð og fjöllin allt í kring. Þangað var komið kl.14.30.
Eftir að fólk hafði gert nesti sínu skil og dáðst nóg að útsýninu og sungið dalnum prís, var haldið ofan af hnjúknum til suðurs og hlaupið á snjó niður í Hofsárdal og áfram allargötur til byggða að Hofsá aftur eftir rétt um 8 tíma dýrðlega gönguferð.