Hús vikunnar - Steinn

Hús vikunnar - Steinn


Hús vikunnar - Steinn (Sandskeið 16)

Steinn 1914 (Þorsteinshús III,Hallgrímshús, Steinstaðir) Sandskeið 16 (1984)

(saga Dalvíkur II bindi, bl. 402 (eins og staðan var 1918))
Eigendur Þorsteinn Jónsson, kaupmaður og k.h. Ingibjörg Baldvinsdóttir. Húsráðendur Jón Ágústsson sjómaður frá Sænesi og k.h. Jóhanna Halldórsdóttir frá Litlu-Hámundarstöðum.

(Fasteignarmat 1931)
Lóð, 616 m2 ógirt leigulóð. Hús 10,0 x 4,0 m vegghæð frá grunni er 3,5 m. rishæð 1,5 m. Enginn kjallari. Byggt af steinsteypu. Þak af timbri, pappalagt. Gólf, loft og skilrúm af timbri. 1 íbúð með 6 herbergjum. Vatnsleiðsla og ofnar. Reykháfur 1 steinsteyptur. Þurrt og hlítt. Útihús: steinsteypuhús 5,0 x 3,13 m með járnþaki, áfast íbúðarhúsi.(fjós og hlaða byggt 1923 eigandi Gunnlaugur Hallgrímsson, Svalbarðsströnd.

(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Einlyft steinhús á grunni, þiljað innan. Vesturgafl sprakk frá og þar þurfti mikilla viðgerða. Óíbúðarhæft. Íbúar tveir. Húsráðendur Hallgrímur Sigurðsson og Þorláksína Sigurðardóttir.

(Saga Dalvíkur III bindi, bl. 293 (Húsagerð og hýbýlakostur á Dalvík um 1936))
(l: 10,0 – b: 4,5 – h: 4,5) Steinhús. Aðalhæð þrjú herbergi, forstofa, uppgangur á lofthæð. – Lofthæð tvö herbergi og geymsla. Húsið þiljað innan að mestu. Íbúðarherbergi máluð eða veggfóðruð. Skilrúm úr timbri. Bárujárnsþak. Kolakynding. Rafmagn til ljósa.
Fjós og haughús. (l: 5,0 – b: 3,5 – h: 2,0). Áfast íbúðarhúsinu, steinsteypt með járnþaki
Skúr. (l: 4,0 – b: 3,0 – h: 2,5). Úr bárujárni á timburgrind með járnþaki (1932).

Stutt saga húss
Þorsteinn Jónson kaupmaður byggði húsið árið 1914. Jóhann Jónsson og Anna Júlíusdóttir áttu það um tíma og bjuggu þar ásamt dætrum sínum Guðrúnu og Valdísi. Þórarinn Þorleifsson og Ingibjörg Jónsdóttir bjuggu þar lengi en voru ekki eigendur þess. Um tíma átti Skúli Pálsson húsið og hann byggði inngangsskúr við það. 1970 kaupir Torfi Jónsson og Guðbjörg Hjaltadóttir húsið og búa þar ásamt syni Guðbjargar, Hjalta Ben Ágústssyni og sameiginlegri dóttur, Lilju Guðlaugu,f. 1972. Engar stórvægilegar breytingar voru gerðar fyrir utan almennt viðhald, nema að forstofa sem Skúli hafði byggt var klædd og einangruð við innflutning. Sólborg Friðbjörnsdóttir frá Hóli og Sigurður Alfreðsson áttu húsið frá 1975 - 1982 en þá keyptu Hanna Helgadóttir og Guðmundur Æ Sigurvaldason það. Meðan þau áttu húsið voru gerðar miklar breytingar. Sólskáli var reistur sunnan við húsið, þakinu var lyft og húsið allt klætt utan með timbri.
Viðar Valdemarsson á Stein frá 1994 til 1997 þá eignast Lífeyrissjóður matreiðslumanna húsið. 1998 er eigandinn Lífeyrissjóðurinn Lífiðn. Árið 1999 kaupir Sigurður Brynjar Júlíusson af Lífeyrissjóðnum en sama ár eignast Sparisjóður Svarfdæla húsið og það sama ár kaupir Jón Smári Jónsson. Hann selur Þórdísi Lindu Dúadóttur 2004. Hún á húsið til 2011 þegar núverandi eigandi, Arnór Gunnarsson kaupir það.

Athugasemd um hús
Húsið skemmdist illa í jarðskjálftanum 1934 en var lagað. Engar stórvægilegar breytingar voru gerðar fyrir utan almennt viðhald í langan tíma, nema að  forstofa var sett framan við húsið um 1970. Eftir 1982 eru gerðar miklar breytingar á því. Það er byggður sólskáli sunnan við húsið og þakinu lyft og húsið allt klætt utan með lóðréttri timburklæðningu.

Athugasemd um umhverfi húss
Steinsstöðum fylgdi braggi sem nýttur var til fjárbúskaps. (sá braggi var rifinn á haustdögum 2010). Sunnan við húsið er sólpallur sem er umkringdur skjólveggjum. Að öðru leiti er lóð óumhirt.