Sandgerði, Flæðavegur 2
(Svarfdælingar II bindi bl. 445)
Þurrabúðin Sandgerði var reist á Böggvisstaðasandi 1881 og var fyrsta byggða bólið þar, að því er best er vitað, sem hélst til frambúðar. Er enn búið á þessum stað og hefur hann alla tíð haldið sama nafni. Þarna var fyrst torfbær en timburhús var byggt þar 1910 og stendur enn.
(Fasteignarmat 1931)
Lóð 0,58 ha. Leigulóð girt með vírneti og gaddavír. Íbúðarhús: 6,35 x 5,73 m. vegghæð frá kjallara 3,28 m rishæð 2,0 m. Timburhús á steyptum kjallara, útveggir úr timbri, þak úr timbri og járnvarið, gólf og loft úr timbri. Tvær íbúðir, 3 herbergi og eldhús. 1 reykháfur steyptur. Rakalaust en kalt. Byggt 1907. eigandi Angantýr Arngrímsson.
(Saga Dalvíkur III bindi, bl. 292)
Íbúðarhús á steinsteyptum kjallara, ein hæð með porti og risi. Þrjú herbergi í kjallara. Fjögur herbergi á aðalhæð, uppganga á lofthæð og eru þar tvö herbergi. Húsið allt þiljað, málað og veggfóðrað, utan tvö herbergi. Timburskúr (l : 5,3 – b: 4,5 – h: 2,0) áfastur íbúðarhúsi, innbyggður sem fjós og fjárhús. Járnþak á öllu.
Stutt saga húss:
Angantýr Arngrímsson endurbyggði húsið 1910 og reisti það að mestu leyti á rústum gamla torfbæjarins, þó heldur neðar, þ.e. nær tjörninni. (Saga Dalvíkur I, bl. 327). þarna bjó hann til 1924 en þá flutti hann til Þingeyrar. Arngrímur Jóhannesson og kona hans Jórunn Antonsdóttir frá Hamri eignuðust þá húsið. Þau bjuggu þar ásamt dóttur sinni Ingibjörgu og hennar manni, Gunnari Kristinssyni til 1961 en þá kaupir Þorgils Sigurðsson póstmeistari og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir húsið og þau búa þar þangað til þau flytja í Símstöðvarhúsið 1963. Ari Jóhannsson og Dagbjört Jónsdóttir frá Búrfelli keyptu þá húsið og 1973 kaupir Ari Vigfússon frá Þverá í Skíðadal af nafna sínum og býr í húsinu til 1994.
Svanfríður Jónsdóttir á húsið til 1996 en þá kaupir Sverrir Björgvinsson en hann bjó þar frá 1994 og á það til ársins 2000 þegar hann selur núverandi eiganda, Alntonina Kuznecova.
Athugasemd um hús:
Húsið var upphaflega timburklætt en einhvertímann milli 1920 og 30 er það forskalað, það gerði Nuling, norskur múrari sem var hér um það leiti. Húsið er svo nokkurn veginn óbreytt þar til 1996 þegar Sverrir eignast það og lagfærir, enda þá orðið mjög illa farið. Hann skiptir um fúin fótstykki og lagfærir klæðningu. Eftir að Antonina eignaðist húsið hefur húsið verið lagfært mikið, gert við múrskemmdir og húsinu sýndur mikill sómi.
Athugasemd um umhverfi húss:
Lóð girt af með timburgrindverki, trjágróður. Skúr stendur á lóðarmörkum en er að mestu á næstu lóð norðanvið.