Hús vikunnar - Ás 1916 (Jóns Björnssonar hús, síðar Gamli skóli, Grundargata 2)

Hús vikunnar - Ás 1916 (Jóns Björnssonar hús, síðar Gamli skóli, Grundargata 2)

Ás, 1916 (Jóns Björnssonar hús,  síðar Gamli skóli, Grundargata 2)

(Saga Dalvíkur II bindi, bl. 403 (eins og staðan var 1918))
Eigendur og húsráðendur Jón Björnsson rithöfundur og k.h. Dýrleif Tómasdóttir. - Íbúðarhús úr steinsteypu með kjallara, 12 x 10 álnir.

(Saga Dalvíkur III bindi, bl. 289 (Húsagerð og hýbýlakostur á Dalvík um 1936))
Gamli skóli. (l: 7,8 – b: 6,4 – h: 5,25) Tveggja hæða steinhús. Neðri hæð fjögur herbergi. Uppi voru tvær kennslustofur 1932. Borða- og pappírsþak; klætt bárujárni. Kolakynding. Rafmagn til ljósa. Viðbygging. (l:2,5 – b: 2,5 – h:4,0) úr sama efni og aðalhús. Tvær hæðir.
Önnur viðbygging. (l: 3,0 – b: 2,5 – h: 4,0). Úr timbri. Tvær hæðir. Notað til íbúðar 1936.

(Skrá yfir hús og bæi á Dalvík 2. júní 1934. Úr skýrslu Jarðskjálftanefndar)
Steinhús – tvílyft á grunni. Þar urðu miklar skemmdir og húsið óbyggilegt. Tveir íbúar voru þá heimilisfastir. Húsráðendur; Björgvin Vigfússon og Þorbjörg Sigurðardóttir.

Stutt saga húss:
Húsið var byggt 1916. Eigendur og húsráðendur voru Jón Friðrik Björnsson rithöfundur og k.h. Dýrleif Tómasdóttir. Það er steinsteypubygging, 7,7 x 6,3 m að utanmáli, 2 hæðir með lágu risi. Þak úr plægðum borðum og tjörupappaþaki yfir. Veggþykkt á neðri hæð 30 cm. Við vesturstafn var eldiviðarskúr 2,85 x 2,26 m. Yfir eldiviðarskúrnum var forstofa við efri hæðina 2,26 x 1,94 m.


Árið 1918 fluttu Jón Friðrik og Dýrleif til Reykjavíkur og um haustið ákvað fræðslunefnd að kaupa íbúðarhús þeirra, sem boðið var til sölu. Fór fram viðgerð á því og miklar endurbætur. Kennsla hófst á þessum nýja stað haustið 1918. Í lýsingu skólahússins frá 1919 segir: "Eftir húsinu endilöngu á neðri hæð er skilrúmsveggur úr steinsteypu, og undir suðurhlið er búist við að útbúa kennslustofu síðar, þegar kennslustofan á efri hæð verður of lítil. Það þarf að stækka gluggana, því þeir eru langt um of litlir. Á efri hæð eru útveggir, 23 cm þykkir, innveggir 2 cm þykk plægð borð, klædd með máluðum pappa í kennslustofu, en veggjapappír í hinu herberginu. Rúmið milli út- og innveggja er 10 cm, fyllt með muldum mó. Notað til íbúðar 1936." (Saga Dalvíkur III, bl. 75).


Þórarinn Kr. Eldjárn á Tjörn og Tryggvi Kristinsson kenndu við skólann frá byrjun og árið 1919 bættist svo Ingimar Óskarsson í hópinn. Þórarinn kenndi á Dalvík til ársins 1920 en tók þá við Grundarskóla. Eftir að Tryggvi hættir sem skólastjóri á Dalvík 1924, tók Helgi Símonarson við sem skólastjóri barnaskólans á Dalvík og gegndi því starfi í tvo áratugi. Skólinn var starfræktur í Ási, Grundargötu 2 til ársins 1933 en þá var nýja skólahúsið tilbúið til notkunar. Húsið hefur verið notað til íbúðar allar götur síðan.
Þorsteinn Jóhannesson og kona hans Kristín Daníelsdóttir bjuggu í Hamarskoti eða á þeim hluta þess sem nefndist Steinholt frá 1912 – 1916. Fluttu til Dalvíkur 1918 og bjuggu um tíma í Grundargötu 2 uns þau fluttu til Reykjarvíkur.
Björgvin Vigfússon flutti frá Urðum þar sem hann hafði verið vinnumaður í nokkur ár til Dalvíkur ásamt konu sinni Þorbjörgu Sigurhjartardóttur frá Urðum. Þau flutt inn í gamla skólann, Ás, og bjuggu þar til ársins 1934 en fluttu þá og gerðust vinnufólk á Korpúlfsstöðum.


Jóhann Páll Jónsson og kona hans Anna Jóhannesdóttir bjuggu í Lækjarbakka 1933 til 1934 en fluttu þá til Dalvíkur og keyptu Ás. Jóhann var búfræðingur að mennt og fékkst við kennslustörf, hélt m.a. smábarnaskóla á Dalvík árin 1931 – 1936. Þau Jóhann og Anna bjuggu á Ási til æviloka.


Tryggvi Valdimarsson var fæddur á Syðri-Másstöðum í Skíðadal, en var lengi sjómaður og vélstjóri á bátum á Suðurnesjum. Eftir að hann missti annan fótinn í slysi um borð í togara úti fyrir Vestfjörðum flutti hann aftur heim til Dalvíkur og lagði m.a. stund á skósmíði. Hann bjó um tíma í Ási ásamt konu sinni, Bjarney Magnfríði Bjarnadóttur.


Jón Björnsson keypti Ás af Jóhanni Páli Jónssyni árið 1944 og bjó þar ásamt sambúðarkonu sinni, Gunnhildi Tryggvadóttur frá Svertingsstöðum í Eyjafirði. Þau bjuggu á efri hæðinni en Jón hafði smíðaverkstæði á neðri hæðinni. Jón og Gunnhildur bjuggu í Ási til ársins 1953 en fluttu þá í Dröfn og bjuggu þar á meðan þau byggðu sér hús við Stórhólsveg.


Gunnlaugur Rósant Þorsteinsson og kona hans Jónína Sólveig Guðlaugsdóttir bjuggu á Hamri frá 1925 -1953 en keyptu þá Ás af Jóni Björnssyni og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu ekki börn en fósturdóttir þeirra var Jónína Gunnlaug Jóhannesdóttir (systurdóttir Jónínu). Jónína Guðlaug giftist Sigurði Antoni Árnasyni frá Hjalteyri og eignuðust þau dótturina Helgu Kristínu. Jónína Guðlaug dó aðeins 23 ára gömul og ólst Helga dóttir hennar upp hjá fósturafa sínum og ömmu.


Sigurbjörg Gestsdóttir keypti Ás árið 1980. Hún lét taka kjallara hússins í gegn, gerir þar bað- og svefnherbergi auk hols og opnar milli efri og neðri hæðar. Skipt var um alla glugga í húsinu og þeim breytt. Árið 1988 hefur Sigurbjörg svo makaskipti á húsum við Stefán Þorsteinsson, seinna á Jarðbrú. Stefán bjó aldrei í Ási og seldi Gesti Jóhannesi Árskóg húsið sama ár og hann eignaðist það. Gestur átti húsið og bjó í því til ársins 2000 en seldi þá Birni Zoéga Björnssyni og Guðbjörgu Guðjónsdóttur Ás, og áttu þau það til ársins 2005. Síðan þá hafa verið margir eigendur af Ási og margir búið í því, oftast stuttan tíma í einu. Núverandi eigandi hússins er Íbúðalánasjóður.


Húsið er mjög vel byggt og hefur haldið útliti sínu alla tíð, þó hefur gluggum verið breytt á því. Malarbílaplan er framan við húsið. Ágæt lóð með trjám og gróðurflöt