Náttúrusögusafn Vínarborgar er eitt tilkomumesta safn sinnar tegunar í heiminum, höll byggð um 1880 sem hýsir tugþúsundir safnmuna allt frá loftsteinum til risaeðla. Umsjónarmaður Náttúrusetursins á Húsabakka kynnti sér safnið á dögunum.
„Fugl ársins 2013“ vakti sérstaka athygli umsjónarmanns enda kunnuglegur innan um strúta, páfagauka, og fiðraðar risaeðlur. Fuglaverndarsamtök Austurríkis hafa nefnilega kjörið HROSSAGAUKINN fugl ársins að þessu sinni og vilja með því leggja áherslu á verndun votlendis í Evrópu. Hrossagaukum hefur fækkað í Evrópu samhliða eyðingu votlendis . Geta má þess að hrossagaukurinn heitir „Bekassine“ á þýsku og en í alþýðumáli tala menn um „Himmelziege“ eða „fljúgandi geit“.