Ellefu nemendur frá Háskólanum á Hólum komu ásamt kennara sínum, Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur, til Dalvíkurbyggðar í gær og fengu kynningu á sveitarfélaginu. Þessi heimsókn var í tengslum við námskeið sem heitir Byggðaþróun og ferðaþjónusta og þótti tilvalið að heimsækja Dalvíkurbyggð en á síðasta ári var Siglufjörður sóttur heim. Nemendurnir komu í Ráðhúsið og hittu þar upplýsingafulltrúa Dalvíkurbyggðar sem sagði þeim frá sveitarfélaginu og Kolbrúnu Reynisdóttur formann Ferðatrölla. Því næst fóru þau á Hótel Sóley í hádegismat og hittu þau fyrir hótelstjórann sem sýndi þeim hótelið og eftir hádegið var farið að Rimum í Svarfaðardal þar sem þau hittu bæjarstjóra Dalvíkurbyggðar, Svanfríði Ingu Jónasdóttur og Kristján Hjartarson sem ræddu við þau um ibúaþróun og ferðaþjónustu svo fátt eitt sé nefnt. Meðfylgjandi mynd tók Halldór Ingi Ásgeirsson af hópnum í Ráðhúsinu á Dalvík.