Íþrótta- og ólympíusamband Íslands vekur athygli á að dagana 3.- 16. maí n.k. mun fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði, standa fyrir fyrirtækjakeppninni "Hjólað í vinnuna".
Megin markmið Hjólað í vinnuna er að hvetja landsmenn til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota línuskauta. Öll fyrirtæki geta tekið þátt. Ákveðnir flokkar eru eftir fjölda starfsmanna í fyrirtækinu, en það geta hámark 10 starfsmenn verið saman í liði en hvert fyrirtæki getur verið með nokkur lið. Liðin hafa einn liðstjóra sem sér um að skrá liðið og setja allar upplýsingar inn þ.e. fjölda km sem hver fer á dag og fjölda daga sem keppendur hreyfa sig.
Áhugasamir geta kynnt sér þetta nánar á www.isisport.is og farið þar inn í Hjólað í vinnuna sem er til hægri.
Á síðasta ári áttu 354 fyrirtæki og stofnanir frá 34 sveitarfélögum 488 lið í keppninni. Nú er tækifærið að taka þátt í léttu og skemmtilegu átaki með hækkandi sól og tilheyrandi veðurblíðu!