Föstudaginn 9. nóvember verður formlega hleypt á dreifikerfi hitaveitunnar í Svarfaðardal. Af því tilefni býður Hitaveita Dalvíkur öllum íbúum Dalvíkurbyggðar til athafnar að Rimum kl. 15:30 og mun Kvenfélagið Tilraun í Svarfaðardal sjá um veitingar.
Á þessu ári voru samtengd tvö virkjanasvæði Hitaveitu Dalvíkur í öryggisskyni þannig að hvort svæði um sig geti virkað sem varasvæði fyrir hitt ef á þarf að halda. Einnig var dreifikerfi veitunnar stækkað með lögn hitaveitu í Svarfaðardal. Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir er um 213 milljónir en þegar þessi áform voru kynnt íbúum sveitarfélagsin vaknaði mikill áhugi sumarbústaðaeigenda í Svarfaðardal á að taka inn hitaveitu sem varð til þess að dreifikerfið stækkaði meira en áætlað var og hagkvæmni framkvæmdarinnar varð meiri. Nýr miðlunartankur var því settur við Hámundastaðaháls sem nýttur er á stofnæð Hitaveitu Dalvíkur frá Brimnesborgum að Hamri.
Samhliða hitaveituframkvæmdum í ár var lögð stofnlögn vatnsveitu þar sem því var við komið og brunahönum komið upp í öryggisskyni fyrir íbúana. Kostnaður vatnsveitu vegna þessara framkvæmda er áætlaður um 27 milljónir.
Aðrar góðar framkvæmdir hafa fylgt í kjölfar veituframkvæmda en Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar samdi við Tengir hf. um lagningu ljósleiðara frá Hjalteyri að Dalvík og inn Svarfaðardalinn sem gerir íbúum Dalvíkurbyggðar nú kleift að hafa aðgang að háhraðatengingu sem áður var einungis hægt á Dalvík.