Á fimmta degi gönguviku var haldið á fjallið Hestinn sem er 1335 m.y.s. en þátt tóku 21 auk tveggja leiðsögumanna, sú yngsta 10 ára hnáta en einnig voru tveir hundar með í för.
Þegar lagt var af stað frá Klængshóli var hitinn um 20°, sól og logn og því gengið rólega upp hlíðina og staldrað við með reglulegu millibili bæði til að drekka og einnig horfa yfir dalinn á þessum dásamlega degi. Gengið var upp á Skip sem er fagur hengidalur framan við Strákahnjúkinn, þaðan upp í mynni Skipadals og síðan heilsað upp á steinrunnu tröllin sem vaka yfir byggðinni hátt í snarbrattri hlíð Strákahnjúks. Þegar hnjúknum var náð var stórgrýttum hryggnum fylgt
sem leiðir að lokum göngufólk að Hestinum sjálfum. Síðasta spölinn var gengið í fönn og var það mun þægilegra en grjótgangan.
Það var glaður hópur sem náði toppnum í steikjandi hita og sól og verðlaunin ekki af verri endanum því útsýn af Hestinum er engu lík. Óteljandi tindar Tröllaskagans, fjöll Mývatnssveitar og Herðubreið svo eitthvað sé nefnt. Áður en haldið var til baka var nesti, toppmyndatökur og fjallayoga.
Síðan var ein vinsælasta skíðabrekka síðari tíma notuð til að flýta för niður, sumir renndu sér fótskriðu en aðrir einfaldlega settust á rassinn og svo var brunað niður við mikil hlátrasköll.
Að lokum var grösugri hlíðinni fylgt og glaðst yfir dýjamosa, sauðamerg og öðrum ilmandi gróðri.
Komið í Klængshól eftir 7 og ½ tíma frábæra ferð.
Fleiri myndir úr ferðinni er að finna á www.dalvik.is/gonguvika