Góð mæting var á Húsabakkakvöldið sl mánudagskvöld. Konur úr Kvenfélaginu Tilraun mættu þar með hrífur og garðáhöld og tóku til í lundinum sunnan við syðra húsið sem nú er orðinn sannkölluð gróðurvin, skjólsæll og fallegur. Einnig reyttu þær illgresi á leiktækjasvæðinu og olíubáru leiktækin sem félagið gaf Húsabakkaskóla á sínum tíma. Karlarnir unnu á meðan við að keyra möl ofan í veginn niður að fuglahúsinu og lagfæra gönguleiðina umFriðlandið. Sem kunnugt er var skógarlundinum plantað út á sínumn tíma af konum í Svarfaðardal og hittust þær árlega þann 19. júní til að laga þar til. Nú hefur sá þráður verið aftur upp tekinn og hefur Hollvinafélag Húsbakka, Menningar- og Listasmiðjan, Náttúrusetrið, Yogasetrið og fleiri tekið höndum saman með kvenfélaginu að halda því starfi áfam.