Það verður heilmikið líf í Dalvíkurbyggð um helgina.
Á föstudaginn hefst æskulýðsmót með þátttakendum úr Dalvíkurbyggð og erlendis frá. Það stendur yfir frá 26. júní - 6 júlí og verður ýmislegt til gamans gert á þeim tíma.
Forgjafarmót í golfi verður einnig haldið á Arnarholtsvelli, en það er golfklúbburinn Hamar sem heldur mótið.
Þá hefst fyrri Gönguvika í Dalvíkurbyggð einnig á föstudaginn með kynningu í máli og myndum á Náttúrusetrinu að Húsabakka. Kynningin hefst kl. 20:00 og eru allir velkomnir.
Á laugardaginn heldur svo fjörið áfram með bílskúrsmarkaði og garðsölu að Hólavegi 15. á Dalvík, en opið verður frá kl. 11:00-17:00 bæði laugardag og sunnudag.
Fyrstu göngur gönguvikunnar verða einnig farnar á laugardeginum en þá verða Vikið og Múlavegurinn gengin.
Gönguvikan heldur svo áfram á sunnudeginum með fleiri göngum en þá verður sannkallaður vatnadagur þegar gengið verður upp að Nykurtjörn og Skeiðsvatni.