Heima er best - Ungmennaþing í Dalvíkurbyggð

Laugardaginn 25. apríl síðastliðinn fór fram ungmennaþingið "Heima er best" sem ungmennaráð Dalvíkurbyggðar stýrði og skipulagði. Þingið fór fram í félagsmiðstöðinni Týr í Víkurröst.

Skipulag þingsins var með þeim hætti að aðalmenn ungmennaráðs skiptu sér í þrjá hópa og höfðu allir mismunandi málefni til umræðu í sínum hóp.

Umræðuefnin voru:

  • Kostir og gallar þess fyrir ungt fólk að búa í Dalvíkurbyggð.
  • Hlutverk ungmennaráðs og hvernig á að koma tillögum sínum á framfæri.
  • Hvað vilt þú að breytist fyrir ungmenni í Dalvíkurbyggð?


Alls mættu rúmlega 20 ungmenni sem var skipt í þrjá hópa og fékk hver og einn hópur 15-20 mín til að ræða hvert umræðuefni áður en skipt var yfir í  næsta hóp. Öll ungmenni fengu því að ræða um öll málefnin og koma skoðunum sínum á framfæri.

Eftir að umræðum lauk bauð ungmennaráðið upp á pizzuveislu auk þes sem heimsmeistaramótið í borðtennis var haldið en þar varð  Björgvin Máni Friðriksson hlutskarpastur.


Í lokin fóru fulltrúar ungmennaráðs yfir það sem fór fram á þeirra borðum. Ungmennaráðið mun svo fara yfir niðurstöður þingsins á næsta fundi sínum og vinna áfram með þær.