Knattspyrnumaðurinn Heiðar Helguson var í gærkvöldi kjörinn íþróttamaður ársins á árlegu hófi Íþróttasambands Íslands og Samtaka íþróttafréttamanna en hann hlaut 229 stig.
Heiðar er 34 ára gamall framherji, fæddur og uppalinn á Dalvík, en leikur nú með nýliðum Queens Park Rangers í ensku úrvalsdeildinni. Heiðar skoraði þrettán mörk fyrir QPR á síðasta tímabili er liðið vann næstefstu deildina sannfærandi. Hann hefur skorað sjö mörk fyrir QPR í úrvalsdeildinni í vetur og átt þátt í rétt um helmingi marka liðsins en hann skrifaði nýverið undir nýjan eins árs samning við félagið sem gildir út árið 2013. Heiðar hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu síðastliðin ár og skorað tólf mörk í 55 leikjum fyrir liðið.
Sjá nánar á http://www.ruv.is/frett/heidar-kjorinn-ithrottamadur-arsins