Síðasta mánudag fóru nokkur börn með Emmi í smá ferð út í náttúruna.
Þau tóku með sér þrjá plastpoka og myndavél og löbbuðu upp í hæðirnar á bak við Dalvíkurkirkju. Á leiðinni voru allir litlu hlutirnir sem á vegi þeirra urðu skoðaðir og ýmsu drasli í öllum regnbogans litum var safnað saman og sett í tvo af pokunum sem þau komu með. Í þriðja pokann fóru greinar sem síðar eiga eftir að koma sér vel í listasmiðjunni.
Börnin skiptust á að halda á pokunum svo allir fengju að vera með. Í móunum týndu þau einnig gómsæt ber….beint upp í munninn :) Þau tóku sér dágóðan tíma til að rannsaka umhverfið og fékk hver og einn tækifæri til að taka sínar eigin myndir, af náttúrunni og af hinum krökkunum. Sumum fannst gaman að rúlla sér hratt niður hæðirnar. Farið var með pokana þrjá til baka í leikskólann þar sem innihaldið verður sorterað og rannsakað enn frekar. Hér má sjá nokkrar myndir sem börnin tóku sjálf.