Hinn 17. júní 1944, fyrir 64 árum síðan, varð Ísland lýðveldi. Sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar var formlega lokið. Ákveðið var að stofna lýðveldið við hátíðlega athöfn á Þingvöllum á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar. Áður höfðum við verið í konungssambandi við Danmörku, þar áður e.k. nýlenda með réttindi á takti við þá vinda sem blésu á hverri öld, eða tíma. Þannig er allt hverfult í þessum heimi, líka stjórnskipuleg staða ríkja, þjóða og jafnvel sveitarfélaga.
17. júní er gjarnan notaður til að líta yfir farinn veg; höfum við gengið til góðs? Og svo til að meta stöðuna. Það er gott að staldra reglulega við og reyna að átta sig á því hvar við erum stödd og hverjar eru aðstæður okkar og möguleika í risjóttri veröld. Stundum spegla menn líka málefni dagsins og úrlausn þeirra við hugsanlegar skoðanir og viðhorf Jóns Sigurðssonar og reyna þannig að átta sig á því hvort kúrsinn er réttur. Og sýnist þá sitt hverjum.
Já, 17. júní er varðaður endurminningum, upprifjunum og ræðum. Öll eigum við okkar minningar um misskemmtilegar hátíðarræður, ættjarðarlög og fána sem blaktir við hún. Minningar um 17. júní tengjast líka skrúðgöngum, lúðrasveitum og ískrandi hátalarkerfum. Allir eru prúðbúnir og mörgum kalt því veðrið er ekki alltaf í stíl við sumarfatnaðinn.
Á 17. júni fjalla landsfeðurnir og -mæðurnar um stöðu þjóðarbúsins og siglinguna framundan. Ég ætla hér í dag að láta þau um það og líta okkur nær, líta til þess hvernig staða okkar er - hér í Dalvíkurbyggð og hvernig okkar sigling er og gæti orðið.
Ég ætla að halda því fram að við búum við gott gengi. Með því er ég þó ekki að segja að okkar sigling sé hægari en annarra eða að úrlausnarefnin hér séu einfaldari. Nei, svo er alls ekki. Okkar gæfa er miklu fremur sú að við virðumst hafa tileinkað okkur jákvæða nálgun á viðfangsefnin, að horfa á lausnir fremur en vandamál, að horfa á það sem er líklegt til vaxtar og viðgangs í byggðarlaginu, að vera stolt af hinu góða sem gerist (og það er sem betur fer býsna margt) og að standa saman. Það er nefnilega þannig að flestir hlutir hafa margar hliðar og stundum getum við valið okkur sýn á hlutina Við íbúar í þessu sveitarfélagi höfum sýnist mér það sjálfstraust og jákvæða viðhorf að líta á breytingar sem tækifæri, ekki bara sem vandræði.
Staða efnahagsmála, verðbólga og ofurvextir, eru vandamál sem allir eiga við að glíma um þessar mundir, þið sem fjölskyldur og einstaklingar og einnig sveitarfélagið. Við horfum á útgjöldin vaxa á meðan tekjurnar standa í stað. Það er flókin staða sem gerir nýjar kröfur til okkar allra. Við horfum líka framaní áframhaldandi niðurskurð í þorski sem kemur illa við þetta byggðarlag. Dalvíkurbyggð er eitt af stóru þorskvinnslu-sveitarfélögunum og það tekur í þegar niðurskurður á veiðiheimildum er svo mikill. Já, þetta er óáran. En við berum okkur samt mannalega. Við vitum að fiskvinnslufyrirtækin hér eru öflug og byggja á þekkingu. Nú skiptir það meira máli en áður.
Við höfum líka öflug verktakafyritæki í byggingariðnaði og önnur framleiðslufyrirtæki, kraftmikla bændur sem byggja upp og stækka sín fyrirtæki og þjónustufyrirtæki sem eru að gera góða hluti. Á þessu munum við byggja áfram. Af hálfu sveitarfélagsins mun atvinnumálanefndin vinna með atvinnulífinu og styðja við þróun þess. Einnig munum við nýta námsverið til þess að bjóða upp á endur- og símenntun við hæfi og þarfir starfsfólks og fyrirtækja.
Hinn 23. maí sl. voru liðin 10 ár frá því fyrsta sveitarstjórn var kosin fyrir sveitarfélagið Dalvíkurbyggð, en 18. október haustið 1997 hafði sameining verið samþykkt í alsherjaratkvæðagreiðslu í sveitarfélögunum þremur, Árskógshreppi, Dalvíkurbæ og Svarfaðardalshreppi. Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð á sem sagt 10 ára afmæli í ár.
Þessi tíu ár hafa að ýmsu leyti verið umbrotatími. Ýmislegt af því sem vonir voru bundnar við hefur gengið eftir, annað ekki; átök hafa orðið um einstakar ákvarðanir sveitarstjórnar eins og t.d. lokun Húsabakkaskóla, en góður stuðningur við aðrar og nefni ég þá t.d. hitaveituframkvæmdir í dreifbýlinu. Það er eins og gengur í lýðræðissamfélagi þar sem íbúarnir vilja hafa sitt að segja um gang mála oftar en á fjögurra ára fresti.
Íbúaþing vegna mótunar aðalskipulags og mótun skólastefnu fyrir grunnskóla Dalvíkurbyggðar, þar sem íbúar voru ekki bara boðnir velkomnir heldur hvattir til þátttöku, eru dæmi um tilraunir bæjaryfirvalda til að ástunda það sem kallað er íbúalýðræði. Nú er lögbundinn kynningar- og athugasemdaferill vegna aðalskipulagsins að fara af stað og ég hvet ykkur til að kynna ykkur þær tillögur sem lagðar verða fram og koma skoðunum ykkar á framfæri. Það er mikils virði að samstaða ríki um stærstu ákvarðarnir og þá ekki síst ákvarðanir um skipulag sveitarfélagsins sem á að vera ramminn um uppbygging