Börn frá Ittoqqortoormiit á Grænlandi eru í heimsókn þessa dagana í Dalvíkurbyggð, en Ittoqqortoormiit er vinabær Dalvíkur. Börnin dvelja hérna frá 30. maí - 6. júní. Þau eru samtals 10, á aldrinum 9 - 14 ára og dvelja þau hjá fjölskyldum í Dalvíkurbyggð á meðan á dvöl þeirra stendur. Ýmislegt verður gert til gamans þessa dagana en aðalmálið er þó sundkennsla sem fram fer í Sundlaug Dalvíkur alla dagana. Meðal annarrar afþreyingar er heimsókn í Árskóg og á sveitabæ, klifur, skoðunarferðir, bíósýningar og fl.
Ástæðan fyrir komu barnanna er þátttaka í sýningunni Norðrið í norðrinu sem byggðasafnið Hvoll stendur fyrir en sýningin opnar þann 2. júní næstkomandi á safninu. Á heimasíðu sýningarinnar http://www.dalvik.is/Byggdasafn/Syningar/Nordrid-i-nordrinu/ eru að finna allar nánari upplýsingar um hana. Börnin munu taka þátt í opnuninni þar sem þau dansa og syngja.