Ýmislegt var um að vera hjá frjálsíþróttafólkinu okkar síðastliðinn desembermánuð. Júlíana Björk Gunnarsdóttir, Dalvík, sló rúmlega vikugamlt Íslandsmet sitt í stangarstökki um 6 cm á 3. stangarstökksmóti UMSE 30. desember í Boganum á Akureyri. Júliana stökk 2,40m í fyrstu tilraun og er það Íslandsmet í flokki 12 ára og yngri.
Sama dag var haldið Jólakastmót UMSE á Hrafnagili og var keppt í sleggjukasti. Guðmundur Smári Daníelsson, Samherjum, sigraði í flokki 12 ára og yngri og kastaði sleggjunni 33,77m sem er annar besti árangur frá upphafi í þessum flokki og mjög nálægt Íslandsmetinu.Eir Starradóttir, Æskunni, stórbætti sig og kastaði 42,45m en varð að lúta í lægra haldi fyrir Stefaníu Aradóttur, Dalvík, sem kastaði 42,90m. Þessir krakkar eru mjög efnilegir sleggjukastarar og verður gaman að fylgjast með þeim þegar nær dregur sumri
UMSE fór með nokkra keppendur til Reykjavíkur og keppti á Áramóti Fjölnis. Þar náði hin kornunga Júlíana Björk Gunnarsdóttir Dalvík í brons í stangarstökki kvenna þegar hún stökk 2,27m. Eir Starradóttir bætti sig í kúluvarpi kvenna og kastaði 9,04m og náði í brons.