Gloppuvatn

Gloppuvatn

Þriðja dag gönguviku Dalvíkurbyggðar var haldið að Gloppuvatni frá Þverá í Skíðadal en það voru 10 þátttakendur sem fylgdu leiðsögumanni, þar af ein tíu
ára hnáta. Lagt var af stað í 20 gráðu hita, skýjuðu og blæjalogni og stóð þessi blíða alla gönguna. Þverárgilinu fylgt að sunnanverðu og staldrað við á völdum stöðum til að dást að og horfa til allra átta. Síðan gengið upp Kóngsstaðahálsinn, þægileg ganga um ilmandi lyngmóa, allt þar til komið er efst í hálsinn en þá kindagötum fylgt að Gloppuánni. Mikill snjór er í fjöllum og er Gloppuvatn snævi og ísi hulið að mestu, en töfrar þessa hamrasalar þó engu minni.


Göngufólk trítlaði síðan síðasta spölinn upp á Kóngsstaðafjallið en þaðan er útsýn engu lík. Þar var gott að fá sér nesti, virða fyrir sér fegurð dalsins og
rifja upp sögur af huldum vættum. Á bakaleið var gengið í skógarjaðrinum í Kóngsstaðahálsi þar sem blómskrúðið er mikið og fjölbreytt.


Komið til baka eftir 6 tíma ferð þar sem gengnir voru 9.2 km á 3 og ½ tíma sem þýðir að 2 og ½ fóru í aðdáunarstopp, nesti og hvíld.

Sjá fleiri myndir á www.dalvik.is/gonguvika