Dalvíkurbyggð á vinabæ í Grænlandi sem heitir Ittoqqortoormit eða Skoresbysund eins hann var nefndur af Dönum. Bæjarstjórinn í Ittoqqortoormit, Erling Madsen, ásamt bæjarritara, Otto Christensen og eiginkonu sinni, Hildu Madsen, sem jafnframt er kennari við skólann í bænum, komu í heimsókn á mánudag. Þau áttu fund með bæjarstjóra, fjármála- og stjórnsýslustjóra og sviðstjóra fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar.
Á fundinum lýsti bæjarstjórinn þeim möguleikum sem þau sjá varðandi atvinnuuppbyggingu á Austur-Grænlandi á næstu árum og sagði frá sameiningu sveitarfélaga sem þar er í undirbúningi en þá mun Ittoqqortoormit sameinast byggðunum á Anmagsalik-svæðinu og síðan munu þessar byggðir á Austur-Grænlandi sameinast Nuuk sem er höfuðborg Grænlands og er á Vestur-Grænlandi. Engin smá sameining það. Líklega verður þetta víðfeðmasta sveitarfélag í heimi.
Einnig var rætt um möguleika á nemendaskiptum þannig að elstu nemendur grunnskólanna heimsæktu hverjir aðra og grænlensku börnin fengu þá e.t.v. tilsögn í sundi en hin íslensku fengju að aka á hundasleðum. Það mál verður skoðað nánar.
Síðan skoðuðu hinir grænlensku gestir okkar fiskvinnsluna hjá O.Jakobsson, Norðurströnd og Samherja, snæddu saltfisk á Hótel Sóley, fóru á byggðasafnið Hvol og loks dáðust þau að sundlauginni sem þau töldu nauðsynlegt að skoða þar sem spurningin um sundlaug yrði það fyrsta sem spurt yrði um þegar þau færu að reifa hugmyndina um nemendaskipti heima hjá sér. För þeirra var síðan heitið til Kaupmannahafnar með viðkomu á Akureyri og í Reykjavík.
Þau færðu Dalvíkurbyggða að gjöf grímu sem notuð var til að reka burt hið illa og laða að hið góða. Gríman verður sett á vegginn í Ráðhúsinu þar sem hinar glæsilegur gjafir sem við höfum áður þegið af vinum okkar í Ittoqqortoormit eru, ísbjarnarfeldurinn og trommurnar.
Myndir frá heimsókninni má finna í myndasafni.