Miðvikudaginn 30. maí kl. 17:30 verður stórmyndin Blóðug slóð frumsýnd í sal Árskógarskóla. Myndin er lokaafurð verkefnis sem unnið hefur verið að í allan vetur hjá 7. og 8. bekk skólans. Kveikjuna að þessu verkefni má rekja til náms hópsins í sögu á þessu skólaári en efnistökin að þessu sinni voru kjör fólks fyrr á öldum þar sem fjallað skyldi um húsakynni, klæðnað, helstu störf og ekki síst stéttaskiptingu og þau kröppu kjör sem margt fólk á Íslandi bjó við fyrr á öldum. Þegar kennari hópsins, Bjarni Jóhann Valdimarsson fór að skipuleggja kennsluna á haustdögum velti hann því fyrir sér hvernig hægt væri að glæða þetta efni meira lífi og auka áhuga nemendanna á því. Fékk hann þá hugmynd að búa til bíómynd sem gæti á nokkurn hátt endurspeglað aðstæður á þessum tíma og fékk hann myndmenntakennara skólans, Skapta Þór Runólfsson, í lið með sér við gerð myndarinnar.
Strax við upphaf skólans hófu nemendur heimildaöflun. Kynntu sér m.a. húsakynni í tímans rás, klæðnað og störf, með aðstoð bóka og Veraldarvefsins. Að því loknu hófust nemendur svo handa við að skrifa handrit, skapa persónur og hanna búninga. Úr þessu samstarfi, þar sem samþættar voru námsgreinar eins og íslenska, saga, myndmennt og upplýsingatækni, varð svo til myndin Blóðug slóð sem er um 40 mínútna löng mynd sem lýsir þeim erfiðu aðstæðum sem fátækir leiguliðar bjuggu við. Eins og áður sagði verður myndin frumsýnd miðvikudaginn 30. maí kl. 17:30 í sal Árskógarskóla. Aðgangseyrir er 500 kr. og eru allir hjartanlega velkomnir á sýninguna.