Í morgun var athöfn í Dalvíkurskóla þar sem Svanfríður Inga Jónasdóttir bæjarstjóri og Gísli Bjarnason skólastjóri skrifuðu undir samkomulag þess efnis að nemendur og starfsfólk Grunnskóla Dalvíkurbyggðar taki Friðland Svarfdæla „í fóstur“. Er samkomulagið liður umhverfisstefnu skólans og grænfánamarkmiðum hans. Samkomulagið felur í sér að nemendur og starfsfólk Grunnskóla Dalvíkurbyggðar sjá um:
Reglulegt eftirlit og viðhald á gönguleiðum, stikum, skiltum og mannvirkjum í friðlandinu.
Hreinsun og ruslatínslu hvar sem hennar er þörf innan friðlandsins.
Áherslu á umhverfisfræðslu í starfsemi skólans með sérstakri athygli á Friðland Svarfdæla.
Dalvíkurbyggð leggur á móti til efni, verkfæri og aðstöðu til verksins.
Þessa dagana stendur yfir átak í málum Friðlands Svarfdæla á vegum Náttúruseturs á Húsabakka, fuglaskoðunarhús eru í smíðum og stígar hafa verið lagfærðir. Þá gengst Náttúrusetrið í samstarfi við Byggðasafnið Hvol á Dalvík fyrir svokölluðum fuglaferðum í Friðlandið. Þar kynnast börnin lífríki votlendisins og læra að þekkja nokkrar algengustu tegundir votlendisfugla. Ferðin er miðuð við yngri deildir grunnskólans og elstu bekki leikskóla og er fjöldi skólahópa bókaður í þær þessa síðustu daga skólaársins.
|
Svanfríður og Gísli skrifa undir samkomulagið |