Laugardaginn 19. september kl. 14:00 opna Hólmfríður Margrét Sigurðardóttir og Ragnheiður Arngrímsdóttir sýningu í Listasal Saltfisksetursins í Grindavík.
Gler Gallerý Máni er glerlistasmiðja á Dalvík í eigu Hólmfríðar M Sigurðardóttur, Fríðu Möggu (sjá mynd). Hún gerir munina sína úr endurunnu rúðugleri og er að framleiða mjög fjölbreytta vöru allt frá gluggaskrauti til matarstella. Fríða Magga lærði í glerbræðslu fyrir 7 árum hjá Kristínu Jónu Jónsdóttur í Puntinum á Akureyri.
Fríða Magga fæst einnig við Mosaik og má sjá marga fallega muni eftir hana svo sem lampa, kertastjaka og margt margt fleira. Þæfðu töskurnar hennar Fríðu Möggu hafa líka slegið í gegn svo rækilega reyndar að aðeins fáar verða á sýningunni.
Ragnheiður Arngrímsdóttir er áhugaljósmyndari og flugmaður. Hún starfaði sem flugkennari og flugmaður um árabil en þegar frá leið ákvað hún að taka sér frí frá fluginu og snúa sér að uppeldi barna sinna. Ljósmyndun fylgdi fljótlega með sem áhugamál.
Ragnheiður fékk snemma áhuga á myndlist og byrjaði ung að mála myndir en sl. þrjú ár hefur myndavélin heillað meira en penslarnir. Á þessum þremur árum hefur hún vakið athygli bæði fólks og fyrirtækja.
Ragnheiður hefur haldið þrjár einkasýningar, sú fyrsta var í verslun Steinunnar Sigurðardóttur hönnuðar á Laugavegi og sú næsta á Ráðhústorginu á Akureyri, það var útisýning sem bar heitið "Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór" og sýndi bæjarbúa við þau störf sem þá dreymdi um að vinna þegar þeir voru litlir. Þriðja sýning Ragnheiðar var í World Class, Laugum og lýsti sú sýning sýn Ragnheiðar á íslenskri náttúru.
Sýning Fríðu Möggu og Ragnheiðar stendur til 5. október.
Frétt fengin af www.dagur.net