Eins og fram hefur komið á viðburðadagatali hmf. Hrings er fyrirhugað að halda Fiskidagskappreiðar fimmtudaginn 5.ágúst nk. Hugmyndin á bak við kappreiðarnar er að mynda áhorfendavæna íþrótta-hestakeppni þar sem allir geta fylgst með, bæði reyndir sem óreyndir í hestaheiminum. Í kringum fiskidag er mikið um manninn í sveitarfélaginu og teljum við þetta góða viðbót við aðra viðburði á svæðinu og tilvalin skemmtun fyrir m.a. gesti fiskidagsins. Í dag varð það ljóst hver aðal styrktaraðili mótsins yrði. Prómens á Dalvík hefur ákveðið að koma að mótinu með myndarlegum hætti og þar með er það tryggt að veglegt verðlaunafé verður í boði fyrir 3 efstu sæti í hverri grein. Hversu stór potturinn endanlega verður í hverri grein ræðst af þáttöku þar sem prósentuhlutfall af skráningargjöldum munu renna í pottinn.
Mótið er að sjálfsögðu opið öllum og vonumst við til að sjá sem flesta - takið daginn og (fiskidags)helgina frá. Nánari upplýsingar munu verða birtar á heimasíðu félagsins www.hringurdalvik.net. á næstu vikum.
Mótanefnd Hrings